Lagt hald á tölvur og gögn í húsleit í Keflavík
Gerð var húsleit í fjölbýlishúsi í Keflavík í gærdag vegna rannsóknar sem hafin er hjá ríkislögreglustjóra á dreifingu kvikmynda og tónlistar í gegnum netið. Gerð var húsleit hjá tólf einstaklingum í Reykjavík, Hafnarfirði, Árnessýslu, Ísafirði og Keflavík. Aðilarnir sem gerð var húsleit hjá eru grunaðir um að dreifa ólöglega efni, t.d. kvikmyndum, tónlist og tölvuforritum í gegnum netið.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að aðgerðirnar tengist rannsókn á hópi manna sem grunaðir eru um að hafa komist yfir kvikmyndir, tónlist, tölvuforrit og sjónvarpsþætti á netinu og vistað efnið hjá sér með ólöglegum hætti og dreift því til annarra. Rannsókn ríkislögreglustjóra nær til tólf aðila sem taldir eru höfuðpaurar í hópi þeirra sem dreifa og sækja efni í gegnum netið með skipulögðum hætti. Rannsókn málsins hefur staðið í nokkra mánuði en rúmlega 30 manns komu að lögregluaðgerðunum í gær.
Myndin: Lögreglubifreið fyrir utan fjölbýlishúsið í gærdag. VF-ljósmynd/Hilmar Bragi.