Lágmarksútsvar sveitarfélaga verði ekki afnumið
– Sandgerðisbær svarar umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur sent frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga til umsagnar hjá sveitarfélögunum.
Bæjarráð Sandgerðisbæjar telur ekki rétt að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Með slíkri aðgerð væri ýtt undir aðstöðumun á milli sveitarfélaga á landinu og samkeppni þeirra á milli. Jafnframt væri hætta á því að ójöfnuður í samfélaginu mundi aukast þar sem einstaka sveitarfélög gætu boðið útsvarsprósentu sem væri miklum meirihluta þeirra ómögulegt að bjóða.
Þá er líklegt að skekkja myndi myndast á milli þess hvar fólk býr og hvar það þiggur sína þjónustu. Einnig er rétt að benda á að afnám ákvæðis um lágmarksútsvar mundi veikja íslensk sveitarfélög sem öflugar sjálfstæðar stjórnsýslueiningar sem bera ábyrgð á miklu af þeirri nærþjónustu sem Íslendingar njóta.