Lagði fram kæru vegna fjársvika
Íbúi í Reykjanesbæ kærði í gær fjársvik til lögreglunnar á Suðurnesjum. Maðurinn hafði óskað eftir iPhone4 á vefsíðunni Bland.is. Við hann hafði samband karlmaður, sem kvaðst vera með til sölu slíkan síma, auk iPhone 4S. Gæti hann fengið þá saman á 65 þúsund.
Niðurstaðan varð sú að kærandinn fengi símana báða á 50 þúsund. Skyldi hann fá þá senda í pósti eftir að hafa lagt upphæðina inn á tiltekinn reikning, sem hann og gerði. Ekkert bólaði á sendingunni og illa gekk að ná í „seljanda“ símanna. Loks tókst það og sagði hann þá vin sinn hafa fengið að nota reikningsnúmer sitt og síma, þar sem hann væri ekki með heimabanka.
Lögregla rannsakar málið og varar jafnframt við viðskiptum þar sem fólk leggur fjármuni inn á reikning án þess að hafa fengið vöruna í hendur. Fjölmörg mál hafa komið upp að undanförnu, þar sem óprúttnir eru að selja fólki ýmislegt, láta það millifæra á sig fjármuni, en afhenda svo aldrei hlutina sem þeir segjast vera að selja.