Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 24. ágúst 2001 kl. 09:21

Lág vatnsstaða Kleifarvatns

Vatnsmagn Kleifarvatns hefur ekki verið lægra í heila öld að því er segir í fréttatilkynningu frá Vatnamælingum Orkustofnunar. Þurrkatíð nægir ekki til að útskýra lækkun vatnsborðsins. Líklegt er að sprungur í vatnsbotninum hafi opnast í Suðurlandsskjálftunum síðastliðið sumar og valdi auknum leka úr vatninu.
Vatnshæð Kleifarvatns hefur verið skráð í síritandi vatnshæðamæli síðan 1964 en fyrir þann tíma eru til stakir álestrar frá 1930 og frásagnir frá vatnsstöðu frá byrjun síðustu aldar. „Síðan í júní 2000 hefur vatnsborð Kleifarvatns farið stöðugt lækkandi. Það hefur lækkað um tæpa fjóra metra á rúmu ári og er nú í 136,7 m y.s. Ekkert rennsli er frá vatninu á yfirborði en leki um botn vatnsins hefur verið tæpur einn m3/s undanfarin ár. Þessi leki hefur tvöfaldast fyrsta hálfa árið eftir Suðurlandsskálftana í júní 2000. Lekinn hefur minnkað aftur en er þó um 50 % meiri en var fyrir jarðskjálftana og vatnsborðið lækkar enn“, segir í fréttatilkynningunni.
Vegfarendur urðu varir við sprungur í norðurenda vatnsins þar sem vatn fossaði niður og komu þeir tilkynningum til Vatnamælinga Orkustofnunar. Undanfarið hefur verið mjög þurrt en þurrkurinn er þó ekki talin valda þessari vatnsborðslækkun. Sprungurnar gætu hafa opnast í Suðurlandsskjálftum sl. sumar og valdi lækkun vatnsborðs. Óvíst er hvenær vatnsborð nær jafnvægi á ný.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024