Lægstu framlögin til Suðurnesja
Tölulegur samanburður á framlögum ríkisins til atvinnuþróunarfélaga sýnir að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fékk á síðasta ári 268 krónur á hvern íbúa á meðan Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða fékk 5,651 krónu á hvern íbúa. Atvinnuleysi mælist langmest á Suðurnesjum en minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra þar sem ríkið greiðir 2,817 krónur á hvern íbúa til atvinnuþróunar
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) þar sem borin eru saman framlög ríkisins til ýmissa verkefna hér á Suðurnesjum miðað við framlög til annarra landshluta. Þessi samaburðir leiðir í ljós að Suðurnesin bera mun minna úr býtum heldur en aðrir landshlutar.
Ef borin eru saman framlög til símenntunarstöðva kemur í ljós að þau eru 932 krónur á hvern íbúa hér á Suðurnesjum en 3,802 krónur á Austurlandi. Framlög til menningarsamninga á þessu ári eru 890 krónur á hvern íbúa á Suðurnesjum á meðan Vestfirðir fá 3,440 krónur á hvern íbúa.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar búa á svæðinu 1,623 einstaklingar 67 ára og eldri. Svæðið er með 84 hjúkrunarrými. Vesturland er með 1,665 íbúa á þessum aldri en þar eru 221 hjúkrunarrými. Suðurland er með 260 hjúkrunarrými en 2,555 íbúa 67 ára og eldri.
„Uppbygging 30 rúma hjúkrunarheimilis að Nesvöllum mun laga stöðu eitthvað en er langt frá því að fullnægja nauðsynlegum þörfum svæðisins fyrir hjúkrunarrými,“ segir í skýrslunni.