Kyrrahafssardínur í maga þorsks við Grindavík
Það telst ávallt til tíðinda þegar nýjar fisktegundir finnast á Íslandsmiðum. Sú varð raunin þegar fjórir torkennilegir fiskar komu úr þorskmaga í vísindaleiðangri frá Grindavík nýverið. Rannsóknamennirnir þekktu ekki fiskana og færustu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar voru kallaðir til. Greint er frá málinu á mbl.is.
Þeir skoðuðu fenginn gaumgæfilega og úrskurðuðu að þessir lítt meltu og að hluta silfurgljáandi fiskar væru Kyrrahafssardínur. Niðurstaðan þótti mögnuð og aflinn einstakur. Gat verið að fiskur úr Kyrrahafinu væri farinn að synda yfir til Íslands til að halda makríl og norsk-íslenskum síldum selskap?
Það var ekki fyrr en við leit á netinu að hið sanna kom í ljós á heimasíðu beituinnflytjanda. Sardínurnar hafa að öllum líkindum verið fluttar hingað til lands sem agn fyrir aðra fiska og síðan verið hent óskornum og ónotuðum.