Kynntu forrit sem greinir lestrarörðugleika
Gyða Arnmundsdóttir, sérkennslufulltrúi Reykjanesbæjar, og Guðbjörg Ingimundardóttir, sérkennari Holtaskóla, héldu fyrsta námskeið fyrir sérkennara á Suðurnesjum í notkun á greiningarforritinu LOGOS á fimmtudaginn var.
LOGOS er forrit sem greinir dyslexíu og aðra lestrarörðugleika og segir í tilkynningu frá aðstandendum námskeiðisins að um sé að ræða byltingu í greiningum á lestrarerfiðleikum á Íslandi. Forritið er þýtt úr norsku og er byggt á nýjustu rannsóknum Prófessors Torleivs Høiens og samstarfsmanna hans. Það var staðlað og staðfært á síðastliðnum tveimur árum af þeim stöllum ásamt Guðlaugu Snorradóttur, sérkennara úr Kópavogi og Bjarnfríði Jónsdóttur, sérkennslufulltrúa Grindavíkur, og nutu þær aðstoðar frá sérkennurum víða um land.
Bjarnfríður og Guðlaug héldu annað námskeið í Kópavogi á sama tíma og segja eftirspurnina mikla. „Prófið er nýlega komið út og hefur því verið mjög vel tekið og margir skólar hafa þegar fest kaup á því. Sérkennarar sýna því mikinn áhuga því auk þess að vera hagnýtt greiningartæki þá fylgja því úrræði sem hægt er að setja af stað strax þegar greiningu er lokið. Þá segja sérkennarar að LOGOS sé frábært tæki til að meta árangur kennslu eftir að þjálfunartímabili lýkur. Bið eftir greiningu mun því styttast og niðurstöður liggja strax fyrir þegar greiningu er lokið. Prófinu fylgir einnig viðamikil handbók þar sem fjallað er um lestur og lestrarörðugleika.“
VF-mynd/Þorgils - Gyða og Guðbjörg stóðu fyrir námskeiði í Njarðvíkurskóla.