Kynnti undirbúningsvinnu Jarðvangs
Eggert Sólberg Jónsson verkefnisstjóri Jarðvangs á Reykjanesi kynnti í gær verkefnið fyrir ferðaþjónustuaðilum í Grindavík, Grindavik-Experience. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa skrifað undir samkomulag um stofnun jarðvangs á Reykjanesi (Reykjanes Geopark) sem hefja mun umsóknarferli til European Geoparks Networks.
Bundnar eru vonir við að árangur verkefnisins skili sér í aukningu ferðafólks á svæðinu, eflingu vísindarannsókna, aukna samvinnu og uppbyggingu í ferðaþjónustu og dýpri og aukinni þekkingu á viðfangsefninu jarðvangur.
Eggert er með meistarapróf í þjóðfræði og hefur góða reynslu af undirbúningi jarðvangs en hann sat m.a. í undirbúnings- og verkefnahópi um Kötlu jarðvang auk þess sem hann hefur starfað sem forstöðumaður Kötluseturs. Eggert býr í Grindavík ásamt fjölskyldu sinni.
Vegna legu sinnar og áhugaverðra jarðsögu- og menningarminja er Reykjanes tilvalið svæði fyrir jarðvang en áhersla verður lögð á að nýta þá sérstöðu til áframhaldandi þróunar og uppbyggingar á Suðurnesjum. Verkefnið er komið á fleygiferð og leist ferðaþjónustuaðilum í Grindavík vel á þær hugmyndir sem uppi eru á borðinu.