Kynningarátak Grindavíkurbæjar fyrir sjómenn vekur athygli
Grindavík er þriðja aflahæsta höfn landsins og pláss á bátum í bæjarfélaginu eru vel á þriðja hundrað talsins. Aftur á móti er einungis þriðjungur skipverja á grindvískum bátum búsettir í Grindavík og nú hafa bæjaryfirvöld hrundið af stað kynningarátaki sem er ætlað að hvetja sjómenn til að íhuga Grindavík sem valkost til búsetu. Þetta átak vakti athygli Útvegsblaðsins sem segir frá þessu í nýjasta blaðinu sem kom út í dag og birtir viðtal við Róbert Ragnarsson bæjarstjóra. Frétt um málið birtist á vef Grindavíkurbæjar.
„Frá áramótum höfum við farið um borð í fimm báta hér í Grindavík og talað við áhafnir og kynnt fyrir þeim það sem bærinn hefur upp á að bjóða. Við munum halda þessu kynningarátaki áfram á næstu mánuðum og áætlum að fara um borð í alla bátana,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Að sögn Róberts hafa hann og Þorsteinn Gunnarsson, upplýsinga og þróunarfulltrúi Grindavíkurbæjar, fengið góðar móttökur um borð í skipunum og sjómennirnir almennt virst áhugasamir. Margar spurningar hafa brunnið á sjómönnunum, m.a. varðandi atvinnumöguleika fyrir maka, fasteignaverð og þá grunnþjónustu sem bæjarfélagið hefur upp á að bjóða.
Sjávarútvegsbær með öfluga ferðaþjónustu
„Margar af eiginkonum þeirra sjómanna sem við höfum rætt við eru annaðhvort í námi eða hafa lokið framhaldsmenntum. Því hafa þær minni áhuga á störfum í fiskvinnslu en meiri áhuga á ýmsum þjónustustörfum. Hér hefur störfum í ferðaþjónustu fjölgað á síðustu árum og sú þróun fer vel saman við væntingar okkar um að Grindavík verði sjávarútvegsbær með öfluga ferðaþjónustu," segir Róbert.
Hann segir sjómennina einnig hafa spurt um grunnþjónustu eins og leik- og grunnskóla. „Við erum með tvo leikskóla og 460 barna grunnskóla þar sem við erum einungis með réttindakennara. Síðan er íþróttastarf bæjarins gríðarlega sterkt. Við erum með fjölnota íþróttahús og önnur aðstaða er til fyrirmyndar. Þar getum við þakkað sjávarútvegsfyrirtækjum í bænum því þau hafa svo sannarlega styrkt íþróttastarf bæjarins og metnaðurinn er mikill. Ég hef stundum sagt að Ungmennafélag Grindavíkur sé best heppnaða klasasamstarf sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi.“
Að sögn Róberts er til talsvert af tilbúnum lóðum í bænum og þar er hægt að fá lóð fyrir meðalstórt einbýlishús á tvær til þrjár milljónir króna. „Við höfum verið lág í flestum gjaldskrám og það er ódýrara að búa í svona bæ en á höfuðborgarsvæðinu, en eins og gefur að skilja er meira um akstur ef annar aðilinn þarf reglulega að fara til Reykjavíkur.“
Öll sveitarfélög á Suðurnesjum eru nú að skoða hvernig bæta má almenningssamgöngur á svæðinu. Bæjaryfirvöld í Grindavík áforma að efla almenningssamgöngur á milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar annars vegar og Grindavíkur og Reykjavíkur hins vegar. Næga vinnu að fá Atvinnuleysi í Grindavík hefur verið tæp 5% síðustu misseri en að sögn Róberts gefur sú tala ekki raunsæa mynd af atvinnuástandinu.
„Hér er næga vinnu að fá og miklu betra ástand en annars staðar á Suðurnesjum. Við erum að skapa fleiri störf en við erum að manna og þar ber helst að þakka öflugum sjávarútvegi og stöðugum vexti í ferðaþjónustu,“ segir Róbert og viðurkennir að hann á erfitt með að útskýra hvers vegna það er yfir höfuð hægt að finna atvinnulaust fólk í Grindavík.
Nánar má lesa hér.