Samkaup hluthafafundur
Samkaup hluthafafundur

Fréttir

Kynbundinn launamunur hefur aukist á síðustu tveimur árum
Sigurbjörg Ólafsdóttir starfar sem bílstjóri hjá Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli. Sigurbjörg hafði unnið við ýmis störf og átt erfitt með að ná endun saman þegar hún ákvað árið 2007 að taka meiraprófið og reyna fyrir sér sem atvinnubílstjóri
Föstudagur 25. nóvember 2016 kl. 06:00

Kynbundinn launamunur hefur aukist á síðustu tveimur árum

-samkvæmt könnun Gallup fyrir Flóabandalagið

Kynbundinn launamunur hefur hækkað frá árinu 2014, úr 12,4% í 13,7% innan Flóabandalagsins og segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis það vera mikið áfall. „Þetta er óþolandi og okkar mesta áhyggjuefni,“ segir Kristján við Víkurfréttir. Auk VSFK eru Efling stéttarfélag, verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði og Stéttarfélag Vesturlands í Flóabandalaginu.

Kristján segir það vera ólíðandi að kynbundinn launamunur skuli yfir höfuð vera til. „Því að við gerum bara einn kjarasamning fyrir bæði kyn. Við höfum mikið velt fyrir okkur hvar þetta gerist. Gerist þetta í samtölum á milli vinnuveitanda og starfsmanna? Er launaskriðið allt að fara á karlana? Ég veit það ekki en mér finnst þetta óþolandi og við eigum bara mjög erfitt með að horfa á þessa staðreynd,“ segir Kristján.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Eruð þið með einhverjar hugmyndir að því hvernig þið getið útrýmt kynbundnum launamun hjá ykkar félagsmönnum?
„Umræðan er mikilvæg. Þar gegna fjölmiðlar stóru hlutverki í að hjálpa okkur með að vekja athygli á þessu og skapa umræðu í samfélaginu. Svo að reyna að rannsaka hvernig og hvar þetta gerist. Við gefum út einn launataxta fyrir bæði kynin, ekki sér karla- og konutaxta.“

Getur þá ekki verið að þetta liggi aðallega í störfum þar sem samið er um laun við hvern og einn starfsmann, en ekki notast við föst launakerfi?
„Jú það er örugglega rétt. Við sjáum einmitt í niðurstöðum um þá sem hafa farið í launasamtal með atvinnurekanda sínum á síðustu 12 mánuðum, að 36% karla höfðu farið en 25% kvenna. Karlarnir eru duglegri að fara og óska eftir hærri launum, það gæti verið ein skýringin. Við sjáum að 60,7% þeirra sem fóru í launasamtal telja það hafa skilað sér hækkun umfram kjarasamningsbundinna hækkana.“

Það er líka áhugavert að sjá að þegar spurt er „hvaða heildarmánaðarlaun finnast þér sanngjörn fyrir þína vinnu“ þá svöruðu konur að meðaltali að þeim þættu 442.730 kr. sanngjörn laun en karlar svöruðu að þeim þættu 552.728 kr. sanngjörn laun fyrir sína vinnu.
„Já, konurnar eru hógværari,“ segir Kristján.

Væri möguleiki á að verkalýðsfélagið færi af stað með markaðs- og auglýsingaherferð sem hefði það markmið að hvetja konur til að krefjast hærri launa, hækka viðmiðið og minnka hógværðina?
„Við erum hluti af heildarsamtökum, ASÍ, og færum ekki ein og sér í svoleiðis herferð. En við í Flóabandalaginu erum að láta gera þessar kannanir fyrir okkur sem sundurgreina vinnumarkaðinn, eftir stéttarfélögum, kyni, aldri, búsetu, starfshlutfalli, starfsaldri og fleiru og getum þannig kannað stöðuna á okkar hóp.“

Hverjir voru helstu jákvæðu punktarnir úr könnuninni?
„Einn af jákvæðustu punktunum í niðurstöðum könnunarinnar er sá að meðaltal heildarlauna er að hækka úr 372 þúsundum í 429 þúsund á milli ára, sem er 15,4% hækkun, á meðan taxtar hafa hækkað um 6,2%. Á sama tíma hefur verðbólga verið undir markmiði Seðlabankans, svo það var hægt að hækka laun umtalsvert án þess að verðbólgan ryki upp úr öllu valdi.

Annað sem við vorum ánægð með er að svarhlutfallið í könnuninni var töluvert betra en áður og því fleiri marktæk svör. Fólk er meira tilbúið að tjá sig. Það er jákvætt. Atvinnuleysi hefur minnkað, það eru fleiri í vinnu og fleiri að fá hærri tekjur heldur en atvinnuleysisbætur.
 
Sá hópur sem fer til atvinnurekanda síns og biður um launahækkun umfram kjarasamninga fer ört stækkandi og hann er að ná árangri. Það er mjög gleðilegt. Það segir okkur að það er eitthvað launaskrið í gangi, ekki aðeins lágmarkshækkanir.  Við hvetjum fólk til þess og getum aðstoðað og leiðbeint fólki hvernig bera eigi sig að í þeim efnum.
 
Á stórum vinnustöðum þar sem stór launakerfi eru til staðar er það hins vegar erfitt. En þessir stóru launagreiðendur eru þó aðeins að mjakast áfram í því og átta sig á því að það þarf að halda mannskapnum, því vinnuaflið er hreyfanlegt. Það fer bara þangað sem það fær hærri laun og hika ekkert við það. Fólk leggur metnað í að fá sem hæst laun fyrir vinnuna sína, ég tala nú ekki um ef fólk er búið að mennta sig líka. Það eru góðar niðurstöður.

Þeim sem eru í fleiri en einu starfi fer fækkandi. Það er jákvætt að að sjá, en sú tala fer úr 19,2% niður í 17% frá árinu 2014.

Atvinnuleysi hefur minnkað rosalega hér á svæðinu og við erum að koma upp úr mikilli dýfu þar sem við vorum með mesta atvinnuleysið á landinu. En við sjáum að vinnumarkaðurinn hér er rosalega viðkvæmur. Staða fólks er viðkvæm og 16% svarenda í VSFK segjast hafa mjög miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni, sem er hæsta hlutfallið af þeim verkalýðsfélögum sem eru í Flóabandalaginu. Það segir mér að þó það hafi orðið sprenging í ferðamannaiðnaðinum þá er staða fólks viðkvæm. Við þurfum að styrkja hana og byggja upp,“ segir Kristján.
 
Hvaða niðurstöður voru ykkur áhyggjuefni?
„Rúmlega helmingi svarenda, eða 51,8% finnst vinnuálagið sitt vera of mikið. Það er áhyggjuefni og bendir til að það bitni á heilsu fólks sem sést í niðurstöðunum um veikindi starfsmanna. 15,1% aðspurðra voru frá vinnu í einn dag vegna eigin veikinda á síðustu þremur mánuðum og 18% voru frá vinnu í tvo til þrjá daga. Það segir okkur að samtals hafa 33,1% svarenda verið frá vinnu vegna eigin veikinda í einn til þrjá daga á undanförnum þremur mánuðum. Vinnustundafjöldinn er að hækka. Hann er nú að meðaltali 43,1 klukkustund á viku og hækkaði úr 42,4 frá árinu 2014. Fólk er orðið lengur í vinnunni og það er okkur áhyggjuefni.
 
Það slær okkur líka að sjá hve margir eru í leiguhúsnæði, en það stafar reyndar að einhverju leyti af því að hingað er komið talsvert af erlendu vinnuafli sem fer beint í leiguhúsnæði. En leigan er rosalega há og oft eru aðstæðurnar ekki góðar, jafnvel margir í sama herberginu í illa útbúnum húsum eða íbúðum, jafnvel iðnaðarhúsum sem breytt hefur verið í svefnaðstöðu. Við reynum að berjast gegn því í samvinnu með ASÍ og BSRB og laga þessa stöðu fólks á markaðnum,“ segir Kristján að lokum.
 
 
Áhugaverðar niðurstöður:
-Meðaltal heildarlauna hækkaði úr 372.000 í 429.000 frá 2014
-Kynbundinn launamunur hækkaði úr 12,4% í 13,7% miðað við 100% vinnu frá 2014
-51,8% finnst vinnuálagið sitt vera of mikið
-16% svarenda sem eru í VSFK hafa mjög miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni
-Vinnustundafjöldinn hækkaði úr 42,2 í 43,1 klst. á viku að meðaltali
-Fjöldi þeirra sem eru í fleiri en einu starfi fækkaði úr 19,2% í 17%
-Konum finnst 442.730 kr. í heildarmánaðarlaun sanngjörn fyrir sína vinnu í fullu starfi en körlum finnst 552.728 kr. sanngjörn heildarmánaðarlaun fyrir sína vinnu í fullu starfi.
-36% karla en 25% kvenna hafa farið í launasamtal með atvinnurekanda sínum á undanförnum 12 mánuðum
-60,7% þeirra sem fóru í launasamtal töldu það hafa skilað sér hækkun umfram kjarasamningsbundinna hækkana
-33,1% voru frá vinnu vegna eigin veikinda í einn til þrjá daga á undanförnum 3 mánuðum