Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kýldi lögregluþjón og rændi bíl sem ekið var á flugstöðina
Frá vettvangi á Reykjanesbraut. Þarna var að hefjast önnur eftirför eftir að maðurinn hafði rænt bifreið með því að draga ökumann út úr bílnum. Sjónarvottur tók myndina.
Sunnudagur 20. ágúst 2017 kl. 20:28

Kýldi lögregluþjón og rændi bíl sem ekið var á flugstöðina

Sjónarvottur lýsti vettvangi á Reykjanesbraut ofan Aðalgötu í Keflavík nú síðdegis eins og atriði í amerískri hasarmynd.

Maður, sem lögregla veitti eftirför, kýldi lögregluþjón kaldan áður en maðurinn vatt sér að bifreið sem var stopp í röð, reif konu út úr bílnum og tók svo bifreiðina ófrjálsri hendi og lagði á flótta á henni.

Lögreglan hélt þegar á eftir bifreiðinni. Eftirförin endaði þegar bifreiðinni var ekið á anddyri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Maðurinn var ekki hættur og hljóp inn í flugstöðina en hann var króaður af þar inni í horni þar sem hann var handtekinn.

Ekki hefur verið hægt að fá upplýsingar um upphaf málsins aðrar en þær að eftirför hafi hafist á Reykjanesbraut við Grindavíkurveg. Mikið öngþveiti varð svo við nýtt hringtorg á Reykjanesbraut við Aðalgötu þar sem bílnum var ekið á miklum hraða. Þar hafði maðurinn ekið niður merkingar á flótta undan lögreglu.

Sjónarvottur að atburðinum segir í samtali við Víkurfréttir að svo virtist sem maðurinn hafi ætlað að gefast upp. Hann rétti upp hendur og lögreglumaður gekk í átt að honum og hugðist handtaka manninn. Þá kýldi maðurinn lögregluþjóninn kaldan og hljóp að bifreið sem var stopp í öngþveitinu.

Sjónarvotturinn segir að maðurinn hafi barið á bílstjórahurðina og síðan dregið ökumanninn, konu, út úr bílnum og ekið á brott í átt að Rósaselstorgi. „Þetta var bílrán í beinni,“ sagði sjónarvotturinn við Víkurfréttir.

Lögreglan hélt þegar á eftir bílnum en eftirförin endaði við anddyri flugstöðvarinnar komumegin þar sem bifreiðinni var ekið á miklum hraða framhjá listaverkinu Áttum og á anddyrið sem er illa leikið eftir áreksturinn. Mildi er að enginn hafi orðið fyrir bifreiðinni og slasast.

Sjónarvottur í flugstöðinni segir að maðurinn hafi komið inn í flugstöðina og haft í hótunum um að drepa fólk sem yrði á vegi hans. Maðurinn var fljótlega yfirbugaður og færður í járn.

Nokkrar skemmdir urðu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem maðurinn ók á anddyrið komumegin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bifreið mannsins var óökufær eftir að hafa ekið í gegnum framkvæmdasvæðið á Reykjanesbraut við Aðalgötu í Keflavík.