Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kvótaskerðingin: Þungur skellur fyrir Suðurnes
Föstudagur 6. júlí 2007 kl. 17:36

Kvótaskerðingin: Þungur skellur fyrir Suðurnes

Atvinnulíf á Suðurnesjum fékk þungan skell í dag þegar sjávarútvegsráðherra ákvað að skerða aflaheimildir í þorski um 63.000 tonn, eða um 30%. Mun þetta hafa slæm áhrif bæði á stærri og minni útgerðir sem og starfsemi fiskverkunar.


Víkurfréttir höfðu samband við Halldór Ármannsson, formann Reykjaness – félags smábátaeigenda á Reykjanesi. Félagið telur tæplega 100 meðlimi og er Halldór mjög uggandi yfir framtíðinni.

„Þetta hefur mjög slæm áhrif hér á svæðinu. 30% skerðing á aflaheimildum þýðir bara 30% minni vinna. Þetta er sérlega slæmt fyrir okkur í krókakerfinu því aflaheimildir okkar eru svo sterkar í þorski.“

Með minnkandi aflaheimildum er óhætt að gera ráð fyrir því að erfiðleikum verði bundið, sérstaklega fyrir minni útgerðir að bera sig. Halldór segir vissulega útlit fyrir mikla erfiðleika. „Ef menn skoða málið frá venjulegu atvinnulegu sjónarmiði þá sjá allir að ef þú værir bara með vinnu í 8 mánuði á ári væru ekki margir sem næðu endum saman á þeim tíma.“

„Maður er bara alveg mát!“ segir Þorsteinn Erlingsson, bæjarfulltrúi, útgerðarmaður og einnig formaður atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar um þessi tíðindi og segir þau mikið áfall fyrir svæðið. Hann bætti því við að aldrei mætti slaka á klónni í atvinnumálum.


„Frá árinu 1994 þegar Reykjanesbær var stofnaður, höfum við lagt áherslu á atvinnumál almennt og þá sérstaklega eitthvað stórt. Það er að gerast núna hjá okkur. Þó það hafi verið þensla í landinu höfum við alltaf haldið áfram að vinna að þessu og þó það komi álver hingað munum við samt halda áfram. Því við vitum aldrei hvenær áföllin verða.“

Nánar um málið í næsta tölublaði Víkurfrétta

Mynd úr safni VF

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024