Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 3. maí 2000 kl. 17:06

Kvótakerfið er að arð- ræna íslensku þjóðina

Ég bið ykkar um hjálp til að hjálpa okkur öllum. Það er ákaflega áríðandi að allir, ungir sem aldnir, lesi þessa grein gaumgæfilega því hún varðar hag okkar allra svo miklu nemur. Ég veit um leið til afla okkur mikils fjár. Svo mikils fjár að efla mætti heilbrigðiskerfið, löggæslumálin (ekki veitir af), menntamálin, málefni aldraðra, samgöngumálin (tvöföldun Reykjanesbrautar), launakjör þeirra lægstlaunuðustu og í raun hag allra málefna samfélagsins. Með öðrum orðum hag okkar allra. Þessi leið er svo öflug að hún myndi breyta hag fátækasta Íslendingsins í að verða meðaljón, hvað hag varðar miðað við ástandið í dag. Einföld útskýring á kvótakerfinu Við erum öll orðin ansi þreytt á þessari kvótaumræðu. Þetta málefni hefur verið flækt óendanlega fyrir okkur. Sjálfur gjörþekki ég þetta málefni. Nú ætla ég setja það upp í einfalda mynd fyrir ykkur. Það eru til tvær tegundir af fyrirtækjum sem starfa innan kvótalaganna . Annars vegar fyrirtæki sem eiga mikinn kvóta og hagnast óeðlilega mikið, svo mikið að fjárfesta þarf í belg og biðu til að forðast háa skatta. Og hins vegar fyritæki sem þurfa að greiða 130.000 kr. fyrir að veiða einu sinni 1 tonn af þorski, og það til þeirra kvótamiklu. Kvótagreifinn gerir ekki handtak Tökum sem dæmi, tvo 200 tonna netabáta frá Keflavík. Segjum sem svo að annar báturinn sé rauður og kvótalaus, þ.e.a.s. verði að leigja til sín heimildir en hinn er blár og hafi yfir nægum kvóta að ráða. Sá rauði kemur í land með 10 tonn af fallegum stórum þorski. Útgerðin fær 180 kr. fyrir kg eða sem svarar 1,8 millj. kr. fyrir aflann. Þessi 1,8 millj. skiptist þannig að útgerðin fær 0,35 millj. kr., áhöfnin fær einungis 0,25 millj. kr. en einhver kvótagreifi sem nennir ekki að veiða kvótann sinn sjálfur og gerir í raun ekki handtak, fær 1,2 millj.kr. af þessu aflaverðmæti. Og það bara fyrir að leigja kvótann sinn! Þessi útgerð rétt skrimtir. Hún þarf hjálp. Eigandi þessarar útgerðar vill miklu frekar borga ykkur fyrir að veiða, samborgurum sínum og um leið gera skyldu sína gagnvart stjórnarskránni, frekar en að borga einhverjum flottræfli útí bæ 66% af öllu sem hann aflar. Þið verðið að hjálpa honum svo að hann geti hjálpað ykkur. Kaupir fótboltaklúbba á Englandi Sá blái kemur í land með 10 tonn af fallegum stórum þorski. Útgerðin fær180 kr. fyrir kg eða sem svarar 1,8 millj. kr. fyrir aflann. Þessi 1,8 millj. skiptist þannig að áhöfnin fær 0,25 millj. kr. en útgerðin tekur afganginn eða 1,55 millj. kr. Af þessu leiðir allt of mikill hagnaður, svo mikill að útgerðin gerir ekkert annað en að fjárfesta í vörubílum og húsakosti endalaust til forðast mikla skattabyrði vegna hins mikla hagnaðar. Á endanum verður þetta þannig að nokkrir vöruflutningabílar og margfalt stærri húsakostur en þörf er á, komast til eigna hjá fyrirtækinu. Einn bíll og margfalt minni húsakostur myndi í raun duga til að þjóna þessum báti, annað er hreint „spreð“. Þetta er svo langt gengið að hann er farinn að kaupa fótboltaklúbba á Englandi fyrir ykkar fé. Málum þá alla röndótta Aðalmálið er, hvernig eigum við að gera þetta? Það er miklu betra að mála bátana röndótta (með bláum og rauðum lit). Þannig að þegar sá röndótti kæmi í land með 10 tonn af fallegum stórum þorski þá myndi þessi 1,8 millj. skiptast á eftirfarandi máta: Áhöfn 0,35 millj. kr., útgerð 0,45 millj. kr., OG SAMFÉLAGIÐ 1,0 MILLJÓN KRÓNA. Þessum aurum erum við af sjá af á hverjum einasta degi. Þegar ég segi VIÐ, þá er ég að tala um okkur öll, verkamenn, lögreglumenn, verslunarfólk; ALLA. Auðlindin er okkar allra Það stendur skýrt og skorinort í stjórnarskrárlögum að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það stendur hvergi skrifað að einungis nokkrir útvaldir megi taka auðlindina okkar og nýta hana í eigin þágu án nokkurs gjalds til okkar allra eða í ríkissjóð. Hvað erum við að tala um mikla peninga ? Dæmi: Reykjanesbær hafði í tekjur 1800 millj. árið 1999. Ef við tækjum kvóta samkvæmt höfðatölu til Reykjanesbæjar þá fengi Reykjanesbær ca. 20.000 tonn. Segjum að Reykjanesbær myndi fá þennan kvóta en ekki nokkrir útvaldir eins og er í dag. Reykjanesbær myndi leigja þennan kvóta á uppboði til eins árs í senn. Tökum 70% af kvótaleiguverði eins og það er í dag. Með þessum hætti myndu tekjur Reykjanesbæjar aukast úr 1800 millj. í 3600 millj. eða tvöfaldast og það ár eftir ár. Það segir sig sjálft að ef sá rauði getur skrimt á 100% kvótaleiguverði eins og er í dag, þá ættu öll útgerðarfyrirtæki að geta rekið sig nokkuð vel á 70% leiguverði frá Reykjanesbæ. Við erum rænd á degi hverjum Um daginn seldi sig einstaklingur úr greininni kvóta fyrir um 4,5 milljarða eða 4500 millj. kr. Í okkar fræga fámenni, Íslandi, eru þetta miklir peningar. Við verðum að trúa því að hinn raunverulegi arður í sjávarútveginum, renni ekki til ykkar eins og vera ber, heldur einungis til fáeinna fjölskyldna í landinu. Ég er ekki að biðja um kúvendingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu, heldur einungis að afhenda okkur það sem okkur ber og við eigum með réttu. Það er verið að ræna okkur öll, dag frá degi. 16 ára gömul lygi Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað Ellert, Jónína og hvað þau öll heita í bæjarstjórninni gætu gert fyrir auka 1800 millj. kr. Við gætum byggt fleiri Reykjaneshallir, fjórfaldað Reykjanesbrautina, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þyrfti ekki að líða 10 millj. kr. taprekstur á mánuði vegna peningaskorts frá ríkinu, löggæslan myndi stóreflast , en mikil þörf er á því m.t.t. fíknefnavandans. Að ykkur hefur verið logið í 16 ár eða frá því að núverandi kvótakerfi var komið á árið 1984. Tökum höndum saman á borgarafundi Ég legg til að haldinn verði borgarafundur um þetta alvarlega mál á næstu misserum. Öllum sem er annt um framtíð barna sinna, náungann og hið almenna réttlæti er skylt að mæta. Þema fundarins verður sú skýlausa krafa okkar að heimta gjald til samfélagsins fyrir náttúruauðlind okkar, nytjar hafsins. Undirritaður óskar eftir viðbrögðum samborgara sinna með bréfum póstlögðum til: Gunnars Örlygssonar, Pósthólf 501, 230 Keflavík. Ef viðbrögð verða eins og ætla skyldi, mun undirritaður stofna til fundar í Stapa eða á öðrum sambærilegum fundarstað á allra næstu vikum eða dögum. Það stendur skrifað í öllum trúarbrögðum og heimspeki, að standa beri upp á móti óréttlæti, það er gangur náttúrunnar, gleymið ekki skyldu ykkar, einn fyrir alla, allir fyrir einn. Virðingarfyllst, Gunnar Örlygsson útgerðarmaður og fiskútflytjandi, Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024