Kvöldstund með Kór Keflavíkurkirkju og Sönghópi Suðurnesja
-samsöngur og kaffihúsastemmning
Kvöldstund með kór Keflavíkurkirkju vakti mikla lukku sl. vetur og verður hún nú endurvakin á ný en fyrsta kvöldið verður haldið í Kirkjulundi á morgun, þriðjudaginn 24. nóvember kl. 20:00.
Að þessu sinni verður hinn hressi Sönghópur Suðurnesja gestur kvöldsins undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar. Munu kórarnir taka lagið saman og eins flytja nokkur lög í sitt hvoru lagi.
Það er aldrei að vita nema nokkur jólalög slæðist með enda aðeins mánuður til jóla og hinn skemmtilegi samsöngur verður til staðar.
Kórkvöldin eru liður í fjáröflun kórsins sem hyggst utan næsta sumar og er aðgönguverð aðeins kr. 500. Posi á staðnum og einnig geta gestir lagt fram frjáls framlög.
Boðið verður upp á kaffi á staðnum og eitthvað með því í notalegri kaffihúsastemmningu.