Kvikugangurinn á um 1 km dýpi
Sterkari og sterkari merki eru um að lóðréttur kvikugangur sé að myndast við Fagradalsfjall, en á sama tíma hefur aðeins dregið úr vaxtarhraða kvikugangsins. Nú er kvikugangurinn á um 1 km dýpi þar sem hann er lengst til suðvesturs og hefur hann haldið áfram að grynnast. Þetta hefur mbl.is eftir Kristínu Jónsdóttir fagstjóra náttúruvár á Veðurstofunni.
„Meðan að kvikugangurinn er grynnast og það er að bætast í eru enn líkur á gosi,“ segir Kristín. Eins og staðan er núna er mest virkni núna í suðvestur enda kvikugangsins. „Mestu átökin eru syðst. Þar er þetta að grynnka og aukast,“ segir Kristín og bætir við að endi kvikugangsins hafi undanfarið færst um 1 til 1,5 km í suðvestur.