Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi
Tvær vikur eru liðnar frá lokum síðasta eldgoss á Sundhnúksgígaröðinni. Gögn frá GPS-mælum sýna að landris í Svartsengi heldur áfram á jöfnum hraða. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum áætla að kvikusöfnun undir Svartsengi haldi sömuleiðis áfram á svipuðum hraða. Mælingar á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar til þess sem sást á milli síðustu kvikuhlaupa og eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Veðurstofu Íslands.
Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og magn kviku nær að verða sambærilegt og í aðdraganda síðustu atburða má búast við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Of snemmt er hins vegar að fullyrða um hvenær von er á næsta kvikuhlaupi eða eldgosi. Ef horft er til síðustu tveggja atburða er ólíklegt að það dragi til tíðinda á næstu vikum.
Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Græna línan sýnir þróun kvikusöfnunar á milli síðustu tveggja eldgosa. Rauða línan sýnir þróun kvikusöfnunar eftir að síðasta eldgos hófst (22. ágúst) sem sýnir sambærilega þróun og sú græna.
Hættumat uppfært
Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 3. október næstkomandi.
Töluverðar breytingar hafa verið gerðar, þær helstu snúa að mati á hættu vegna sprunguhreyfinga og vegna jarðfalls ofan í sprungur en þessar tvær hættur hafa verið lækkaðar fyrir nánast öll svæði.
Hraunbreiðan er enn mjög heit og hætta af völdum hennar því talin mikil á þeim svæðum þar sem hraun rann í síðasta gosi og gasmengun töluverð frá hraunbreiðunni. Hætta af völdum gjósku er nú alls staðar á lægsta stigi.
Í nýju hættumati er heildarhættan fyrir svæði 4 - Grindavík - metin „nokkur“ (gult stig), en hætta vegna jarðfalls ofan í sprungu er þó metin hærri, eða „töluverð“.
Veðurstofan vill taka það fram að enn er unnið að því að girða af og merkja hættuleg svæði innan Grindavíkur á vegum Grindavíkurnefndar.
Hættumatið tekur ekki tillit til slíkra mótvægisaðgerða sem þykja nauðsynlegar til að koma í veg fyrir möguleg slys eða tjón af völdum þeirrar hættu sem er til staðar hverju sinni.
Fyrir utan þá hættu sem Veðurstofan metur eru fleiri þættir sem hafa áhrif á hversu mikil áhætta fylgir því að dvelja innan bæjarins hverju sinni, s.s. takmarkaðar flóttaleiðir, sprunguviðverðir, hús sem geta hrunið, hætta af löskuðum rafstrengjum o.s.fr.v.
(Smellið á kortið til að stækka)