Kviknaði tvisvar í Kaffitári
Eldur kviknaði í loftræstistokkum sem liggja frá brennsluofni hjá fyrirtækinu Kaffitári í morgun. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað á vettvang en þá var töluverður reykur í húsinu.
Mikill hiti er í loftræstistokknum þegar brennsla stendur yfir en talið er að út frá honum hafi kviknað í úrgangsefnum frá kaffibaunum sem þar mátti finna. Starfsmenn Kaffitárs telja að skemmdir séu smávægilegar en hefði getað farið mun verr.
Þegar slökkvistarfi var lokið bauð starfsfólk Kaffitárs slökkviliðsmönnunum í kaffi en þeir gátu vart fengið sér sopa því aftur kviknaði í loftræstistokkunum. Réðu þeir niðurlögum eldsins á skammri stundu.
Hönnun hússins er talin hafa komið í veg fyrir frekari skemmdir en að sögn Brunavarna Suðurnesja er það mjög vel hannað. Reykurinn komst auðveldlega út um glugga og loftræstistokka en slökkviliðsmenn á staðnum sögðu við Víkurfréttir að annars hefði húsið verið mettað reyk.
Efri mynd: Slökkviliðsmenn ráða niðurlögum eldsins í loftræstistokkunum
Neðri mynd: Þeir gátu vart fengið sér kaffisopa því aftur kviknaði í loftræstistokkunum
VF-myndir/AMG