Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kvenfélag Njarðvíkur: Veitti Virkjun eina milljón í styrk
Fimmtudagur 12. janúar 2012 kl. 10:39

Kvenfélag Njarðvíkur: Veitti Virkjun eina milljón í styrk

Á síðasta jólafundi Kvenfélags Njarðvíkur var ákveðið að veita einni milljón króna í styrk til reksturs Virkjunar. Að sögn Gunnars Halldórs Gunnarssonar forstöðumanns þá kom þessi frétt nú um jólin eins og himnasending því það hefur reynst enn erfiðara að fjármagna rekstur Virkjunar undanfarið vegna samdráttar hjá flestum þeim aðilum sem sjá Virkjun fyrir rekstrarfé.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnar Halldór segir það vera sameiginlegt verkefni allra á Suðurnesjum að aðstoða og styðja atvinnuleitendur enda séu félagslegar afleiðingar atvinnuleysis margþættar eins og kunnugt er. Starfið í haust var mjög blómlegt og fjöldi manns sóttu margvísleg námskeið og hópastarf í Virkjun.

Heimsóknir í Virkjun voru samtals 15.000 á síðasta ári og hefur þeim farið fjölgandi á hverju ári, sem er til marks um þörfina á slíkri starfsemi hér á Suðurnesjum. Því sé svona styrkur og viðurkenning mjög mikilvæg fyrir starfsemi Virkjunar því það sé hvatning til að halda áfram á sömu braut. Það er jú öllum nauðsynlegt að fá klapp á bakið öðru hvoru.
Virkjun hefur frá stofnun verið mjög mikilvægur hlekkur í stuðningi við þá fjölmörgu sem eru án atvinnu á Suðurnesjum. Hins vegar skal tekið fram að allir eru velkomnir í Virkjun, atvinnuleitendur, atvinnulausir, bótaþegar, heldra fólk og allir þeir sem vantar verkefni og virkni á daginn.

Tekist hefur víðtæk samstaða um Virkjun og er óhætt að segja að starfið hafi að mestu leyti gengið upp á þessu ári miðað við þær forsendur sem lagt var af stað með. Virkjun hefur víða vakið mikla athygli vegna þess hversu einstök starfsemin er. Virkjun eflir fólk með því að halda uppi öflugu hópa- og námskeiðahaldi þar sem hópur sjálfboðaliða leiðbeinir og fræða. Virkjun er opin frá klukkan 08:00 til 16:00 og margvísleg dagskrá í boði alla virka daga vikunnar fyrir fjölbreyttan notendahóp.

Virkjun mannauðs þakkar Kvenfélagi Njarðvíkur þetta rausnarlega framlag sem er mikilvægt lóð á vogarskálarnar við að halda starfseminni gangandi enn um stund.