Kveikt í ruslakörfu við ljósabekk
Ekki mátti miklu muna að illa færi þegar eldur var borinn að ruslakörfu í ljósabekkjarklefa í líkamsræktarstöðinni Lífsstíl í Reykjanesbæ á föstudag.
Að sögn Vikars Sigurjónssonar, eiganda Lífsstíls, kom starfsmaður stöðvarinnar að fötunni en átti ekki í vandræðum með að slökkva logann með vatni.
„Það varð ekkert tjón af þessu, en það er tilhugsunin um hvað hefði getað gerst sem angrar mann. Ég er búinn að kæra atvikið til lögreglu og það mál er í réttum farvegi.“
Vikar telur sig vita hver var að verki, en eftirlitsmyndavélar eru á staðnum sem sýna allan umgang um húsnæðið.
Myndin er úr safni VF og tengist fréttinni ekki.