Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

KSK blæs til sóknar
Laugardagur 31. ágúst 2013 kl. 10:19

KSK blæs til sóknar

Fólk kallar eftir fyrirtækjum sem hafa sterkar og traustar rætur

Kaupfélag Suðurnesja undirritaði í vikunni samstarfssamning við Ungmennafélag Njarðvíkur og Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag. Samstarfssamningurinn miðar að því að íþróttafélögin afli félagsmanna í KSK. KSK greiðir síðan félögunum styrk fyrir hvern nýjan félaga. Með félagsaðild sinni að KSK eru félagsmenn í samvinnufélagi jafnframt eigendur og njóta afsláttarkjara og sértilboða í verslunum Kaupfélags Suðurnesja. KSK er stærsti eignaraðili Samkaupa hf sem rekur Nettó, Kaskó, Samkaup Úrval og Samkaup Strax. Samkaup hf rekur 48 verslanir víðsvegar um landið og er með höfuðstöðvar í Reykjanesbæ.

Samhliða undirritun samninga við Keflavík og UMFN var opnaður nýr vefur Kaupfélags Suðurnesja, www.ksk.is. Þar geta Suðurnesjamenn, 16 ára og eldri, gerst félagsmenn í KSK og jafnframt stutt við íþróttafélögin UMFN og Keflavík. Íþróttafélögin tvö í Reykjanesbæ eru þau fyrstu sem gera svona samstarfssamning við KSK á næstu misserum verður félögum í öðrum sveitarfélögum boðið að gera samskonar samning.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félagið vaxið og dafnað

Að sögn Skúla Skúlasonar, formanns KSK og stjórnarformanns Samkaupa hf., er kaupfélagið að blása til sóknar. „Já, það er rétt orðað, við erum að blása til sóknar. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað 13. ágúst 1945 og styttist því í 75 ára afmælið. Félagið hefur vaxið og dafnað samhliða uppbyggingu svæðisins. Við finnum það á fólki, sérstaklega eftir hrunið, að það er kallað eftir fyrirtækjum sem hafa sterkar og traustar rætur. Fyrirtækjum sem hafa samfélagslega ábyrgð ofarlega í forgangsröðinni.“

- En nú hefur félagið ekki verið sérstaklega áberandi undanfarin ár?
„Athyglin hefur eðlilega verið meira á Samkaupum heldur en móðurfélaginu og ég sé það jafnvægi í sjálfu sér ekki breytast. Móðurfélagið hefur og mun enn frekar gera sig meira gildandi á öðrum sviðum. Við völdum að færa rekstur matvöruverslananna í Samkaup hf 1998, lagaumhverfið var hliðhollara hlutafélagaforminu. Rekstur Samkaupa hefur gengið vel í gegnum árin og hlutdeild okkar vaxið. Samkaup verður áfram í sókn, við erum með hörku lið, samstilltan hóp fagfólks sem við Suðurnesjamenn getum verið stolt af. Samkaup setur beint tugi miljóna á ári í ýmis samfélagsverkefni auk stuðnings sem ekki er metinn til fjár. Það er því dýrmætt fyrir okkur hér á svæðinu að standa vörð um fyrirtækið“.

Hreyfiafl í Samfélaginu

„Kaupfélagið mun á næstu árum verða meira áberandi á ýmsum sviðum sem hreyfiafl hér á Suðurnesjum”, segir Skúli. „Það bíða okkar ýmsar áskoranir hér á svæðinu næstu árin. Atvinnumál og menntamál verða klassísk viðfangsefni, skipulagsmál, þróun sveitarfélaganna en mildari áherslur eins og að byggja upp stolt og samstöðu milli okkar má hins vegar ekki vanmeta. Ég mundi til dæmis halda að við ættum að hrinda af stað „Samstarfsvettvangi um aukna hagsæld á Suðurnesjum“, svipað verkefni og stjórnmálamenn og forsætisráðuneytið settu af stað með „Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi“. Orðið samvinna er mikið notað í ýmsu samhengi en manni finnst oft skorta á innihaldið.
Félagið þarf líka að vera sterkur bakhjarl dótturfélaga sinna og stjórnin munu einbeita sér að því.“

- KSK er samvinnufélag, eru þau ennþá til?
„Á Íslandi eru í dag 31.000 Íslendingar í samvinnufélögum sem er um 10% þjóðarinnar, en við erum alls um 321 þúsund. Samvinnufélögin eru 35 talsins hjá hagstofunni í dag, þau voru miklu fleiri hér áður fyrr. Ég ætla ekki að verja slæm mannanna verk hvorki hjá samvinnuhreyfingu né sérhagsmunafélögum. Samvinnuformið á þó rétt á sér til jafns við annað rekstrarform og við eigum að bera virðingu fyrir því.
Í heiminum í dag er 1 milljarður af 7 milljörðum jarðarbúa í samvinnufélögum. Já, sjáðu til einn af hverjum 7 jarðarbúum eru aðilar að samvinnufélögum og þar af leiðandi eigendur félaganna. Til samanburðar eru 342 milljónir jarðarbúa eigendur í hlutafélögum. Það eru því tæplega 3 sinnum fleiri eigendur samvinnufélaga. Samvinnufélög eru því síður en svo dauð. Það er mikil gróska í samvinnustarfi í yfir 180 löndum í heiminum og þau hafa tekið af skarið t.d. í umhverfismálum, gæðamálum og góðri stjórnsýslu, auk þess að vera leiðandi í þróunarlöndunum í verkefnum eins og Fair Trade.“

- Hvernig gerist maður félagi í KSK og hvað fær maður út úr því?
„Á heimasíðu okkar KSK.is er hægt að gerast félagi og einnig á heimasíðum verslananna. Allir 16 ára og eldri sem búa á félagssvæði KSK geta orðið félagar en félagssvæðið okkar er Suðurnes, Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjavík.
Félagsgjald er kr. 1.000,- sem varðveitist í stofnsjóði félagsins á nafni þínu. Stofnsjóður er séreignarsjóður.
Þú færð 2% afslátt beint á kassa, við hver viðskipti og tilboð eru auglýst fyrir félagsmenn. Þegar þú ákveður að gerast félagi verður þú líka eigandi og getur haft áhrif, einn maður eitt atkvæði er samvinnureglan. Nú þegar þú kaupir inn í þinni verslun stuðlar þú að því að  hlutdeild ágóðans skili sér til uppbyggingar í samfélagi okkar.“