Krónan kemur til Reykjanesbæjar
-Blómaval hættir, breytingar á rekstri Húsasmiðjunnar og Bónus opnar í Félagsbíói
„Við erum á leiðinni, ég kem loksins í gamla heimabæinn minn bítlabæinn", sagði Kristinn Skúlason rekstrarstjóri Krónunar sem mun opna verslun á Fitjum í Reykjanesbæ á árinu.
Verið er að teikna og skipuleggja verslunina sem opnar í húsnæði Húsasmiðjunnar og Blómavals. Blómaval mun hætta rekstri en breytingar verða gerðar á rekstri Húsasmiðjunnar.
„Það hefur verið eftirspurn eftir Krónunni um nokkurt skeið og skorað á okkur á Facebook þannig að við ákváðum að grípa tækifærið og opna hér verslun", sagði Kristinn en að hans sögn verður verslunin frekar stór en hún sé þó enn á teikniborðinu. Kristinn er sonur Skúla Eyjólfssonar kaupmanns í Skúlabúð sem flestir Keflvíkingar kannast við og hefur því sterk tengsl við svæðið „Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Okkur hlakkar til að koma."
Blómaval hættir og breytingar á rekstri Húsasmiðjunnar
Breytingar verða gerðar á rekstri Húsasmiðjunnar og Blómavals sem mun leigja Krónunni stóran hluta af verslunarrými sínu og hætta rekstri Blómavals. Einar Lár Ragnarsson rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar/Blómavals segir að fyrirtækið muni leggja áherslu á byggingarþjónustu og ætli sér að vera verslun fyrir fólk í framkvæmdum, byggingarverktaka og iðnaðarmenn. „Það þýðir að við munum setja út mikið af vörum eins og gjafavöru og búsáhöld og nýta minna rými. Við verðum þó eitthvað áfram með rafmagnstæki og þvottavélar og þurrkara."
Timbursalan verður óbreytt og að sögn Einars meira eins og þegar verslunin var á Smiðjuvöllum.
„Við erum í raun að efla okkur og ætlum að einbeita okkur að því eins og ég sagði að vera byggingavöruverslun."
Þá eru fleiri viðbætur í farvatninu en heyrst hefur að Bónus hyggist opna verslun í Félagsbíó.