Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kröfuhafar vilja semja - ekki fjárhagsstjórn yfir Reykjanesbæ
Frá fundinum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. F.v. Kjartan Már bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs og Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar. VF-mynd/pket.
Þriðjudagur 19. apríl 2016 kl. 18:09

Kröfuhafar vilja semja - ekki fjárhagsstjórn yfir Reykjanesbæ

- forráðamenn Reykjanesbæjar bjartsýnir

Það stefndi í sögulegan fund hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar nú síðdegis. Til stóð að hún tæki fyrir tillögu bæjarráðs frá í síðustu viku um að óskað yrði eftir því að fjárhaldsstjórn tæki við fjármálum bæjarins þar sem ekki náðist samkomulag við alla kröfuhafa um niðurfellingu skulda. Sex mínútum áður en fundur bæjarstjórnar hófst barst henni bréf frá lögmönnum þeirra lífeyrissjóða sem eru í hópi kröfuhafa, um að þeir vilji semja.

Í bréfinu segir að vilji sé til að ræða mögulegar úrlausnir vegna skuldavanda Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar. „Ýmsir möguleikar hafa verið nefndir til að mæta þeim greiðsluvanda sem er til staðar, sem gætu verið grundvöllur slíkra viðræðna og þá mun sú vinna sem unnin hefur verið til þessa nýtast aðilum vel. Það er mat okkar að frestun ákvörðunar um að óska eftir aðkomu fjárhaldsstjórnar um tvær til þrjár vikur geti nýst vel til að láta á viðræðugrundvöll reyna,“ segir í bréfinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á fundi bæjarstjórnar var því lagt til að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar sem fer fram þann 3. maí næstkomandi. Í millitíðinni er ætlunin að reyna að ná samkomulagi við kröfuhafa um niðurfellingu skulda. Allir bæjarfulltrúar voru samþykkir því að fresta afgreiðslu málsins og láta reyna á það hvort takist að semja.