Kríuvarp tókst vel við Norðurkot
Kríuvarp við Norðurkot í Sandgerði lukkaðist vel þetta árið. Í venjulegu ári væri krían að fara frá landinu á þessum tíma en sökum veðurs í sumarbyrjun þá fór varp seint af stað. Krían er því enn í stórum hópum við Norðurkot.
Sigríður H. Sigurðardóttir býr í Norðurkoti. Hún sagðist í samtali við Víkurfréttir mjög sátt við hvernig tókst til í varpinu í sumar og margir ungar hafi komist á legg. Krían hefur þó þurft að sækja langt í síli fyrir ungviðið og hefur mátt sjá kríuna fljúga frá Norðurkoti og yfir Miðnesheiðina til að sækja sílið í sjóinn í Leirunni og Garðsjónum.
Ungarnir er að ná tökum á fluginu um þessar mundir. Þeir sækja hins vegar mikið í þjóðveginn sem liggur um kríuvarpið enda fá þeir hita frá malbikinu. Eitthvað eru ungarnir þrjóskir og sitja sem fastast á götunni þó umferðin þar sé töluverð. Sigríður segist hafa fylgst vel með umferðinni um varpsvæðið síðustu vikur og finnst allir hafa keyrt varlega um svæðið. Hún vill ekki trúa því að ökumenn geri það að leik sínum að aka vísvitandi á kríuungana. Það sé frekar að þeir fljúgi á ökutækin sem fara um veginn.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við Norðurkot í vikunni og sýna unga í vegarkantinum og aðra sem hafa ekki farið varlega í umferðinni.
VF-myndir: Hilmar Bragi
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson // 11. ágúst 2015