Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Kríuvarp hrunið í Sandgerði og Garði
Mánudagur 14. júlí 2008 kl. 13:55

Kríuvarp hrunið í Sandgerði og Garði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kríuvarp er hrunið bæði við Norðurkot í Sandgerði og við Ásgarð á Garðskaga. Þetta staðfestir Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Reykjaness, í samtali við Víkurfréttir.


Kríuvarpið hófst með krafti í ár. Varpið var bæði mikið og hófst á réttum tíma. Hins vegar urðu breytingar í náttúrunni nú í byrjun júlí. Krían virðist ekki finna æti, sem er að uppistöðu sandsíli.


Gunnar Þór tekur einnig eftir breyttri hegðun sílamávs, sem styður þær upplýsingar að varpið sé að bregðast í ár. Mikið er af mávi í heiðinni en það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort ungar nái því að verða fleygir. Lítið sést af dauðum fugli en það kann að skýrast af því að ungar séu étnir.

Ástandið hjá kríunni nú er svipað og árið 2005, þegar varpið hófst með krafti en hrundi svo þegar skyndilegur færðuskortur varð í byrjun júlí. Árin 2006 og 2007 var varpið hins vegar alveg steindautt og mjög fáir ungar komust á legg.

Gunnar sagði að krían hafi yfirgefið hreiður sín og unga og haldi sig nú í hópum við tjarnir og í fjörum. Þá leiti hún langt út á haf í leit að æti.

Fæðuskortur í kríuvarpinu mörg ár í röð getur orðið til þess að varpið færir sig úr stað. Þannig er mögulegt að krían færi sig yfir á aðra landshluta. Varpið við Ásgarð er t.a.m. ekki margra ára gamalt með þeim fjölda kría sem sést hafa þar síðustu ár. Hins vegar er kríuvarp í umhverfi Reykjanesvita mun minna nú en fyrir nokkrum árum. Sönmu sögu er að segja víðar um land. Þannig er kríuvarp við Vík í Mýrdal hraðminnkandi en hefur aukist mikið við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.

Það er ekki bara við Norðurkot og Ásgarð sem varpið er að bregðast, því á Mýrum á Snæfellsnesi er mikill misbrestur á varpinu einnig.

Mynd: Tvær kríur á steini við Norðurkot í Sandgerði kvöld eitt í síðustu viku. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson