Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kristján Pétursson látinn
Miðvikudagur 5. janúar 2011 kl. 09:49

Kristján Pétursson látinn

Kristján Pétursson fv. deildarstjóri Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli andaðist á Landspítalanum 4. janúar sl. 80 ára að aldri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristján fæddist l7. maí l930 að Steini á Reykjaströnd í Skagafjarðarsýslu. Hann var sonur hjónanna Péturs Lárussonar, bónda, d. 1986 og Kristínar Danivalsdóttur, húsmóður, d.1997. Kristján fluttist 16 ára gamall til Keflavíkur með foreldrum sínum og bjó þar um árabil, hin seinni ár bjó hann í Garðabæ. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Ríkey Lúðvíksdóttur, og 6 börn, Vilhjálm (1954), Kristínu (1955), Brynju (1956), Hildi (1958), Þór (1964) og Arnar (1980).

Kristján stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og Lögregluskóla ríkisins og sótti auk þess fjölda námsskeiða um öryggismál og fíkniefnamál í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann starfaði hjá lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1950 til ársins 1960 þegar hann tók við stöðu ráðningastjóra varnarmálaskrifstofu utanríkismálaráðuneytisins. Árið l967 var hann skipaður í starf deildarstjóra tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli þar sem hann lauk starfsæfinni árið l990. Þekktastur var Kristján fyrir brautryðjandastörf við rannsóknir og kynningar á fíkniefnamálum um og eftir l970, auk þess var hann þekktur fyrir uppljóstrun ýmissa stórra sakamála.

Kristján skrifaði margar greinar í dagblöð og tímarit um fjölbreytileg málefni. Þá skrifaði hann tvær bækur, Margir vildu hann feigan (1990) og Þögnin rofin (1994).

Kristján var alla tíð jafnaðarmaður og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var fyrsti formaður ungra jafnaðarmanna í Keflavík þá aðeins l9 ára gamall. Þá var hann kosningastjóri flokksins við alþingiskosningar, formaður fulltrúaráðs og sat í ýmsum nefndum og stjórnum á vegum flokksins.

Kristján var einn af frumkvöðlum að stofnun Golfklúbbs Suðurnesja og sat í fyrstu stjórn félagsins, þá var hann einnig í fyrstu stjórn KFK. Kristján var alla tíð mikill unnandi íslenskrar náttúru og naut sín best í faðmi hennar.