Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Krían og sílamávurinn haldast í hendur
Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson er hér að endurheimta súlu sem fékk gagnarita á löppina (hvít túba) sem segir til um vetrarstöðvar. Myndin tekin 7. júlí 2012.
Fimmtudagur 12. júlí 2012 kl. 15:32

Krían og sílamávurinn haldast í hendur

Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson er forstöðumaður Náttúrustofu Reykjaness sem staðsett er að Garðvegi 1 í Sandgerði. Stofan er smá hvað mannafla varðar, því þar starfa nú einungis tveir starfsmenn. Þrátt fyrir það vinnur Náttúrustofa Reykjaness að mörgum verkefnum og á í góðu samstarfi við aðrar innlendar og erlendar stofnanir sem gerir samlegðaráhrif mikil. Náttúrustofa Reykaness er ein af sjö náttúrustofum sem dreifðar eru hringinn í kringum landið. Stofurnar eru í eigu sveitarfélaga á sínu svæði en reknar með stuðningi frá ríkinu og starfa eftir lögum sem gilda um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Hlutverk Náttúrustofu Reykjaness er að skrá og rannsaka náttúrufar á sínu starfssvæði sem er Suðvesturland.

Á Náttúrustofu Reykjaness hafa helstu verkefni undanfarinna ára verið á sviði fuglarannsókna og rannsókna á lífríki fjöru. Gróðurfar heyrir einnig undir stofuna og segir Gunnar Þór að það sé eitt af verkefnunum að skrá plöntur og gróður sem ekki hafi áður fundist á svæðinu. Þá er tekið við upplýsingum um náttúrufar og stunduð almenn náttúrufarsvöktun sem fellst aðallega í skráningu á útbreiðslu og fjölda lífvera. Verkefnin eru viðamikil en starfsfólkið fátt og því þarf að halda vel utanum allar skráningar.



Á árunum í kringum 1990 var gerð úttekt á 10x10 ferkílómetra reitaskala á Reykjanesskaga á útbreiðslu varpfugla. Gunnar segir að þessari úttekt hafi ekki verið fylgt eftir og því sé nauðsynlegt að gera aðra úttekt til að fá samanburð. Gunnar segist þó vita að miðað við þessa könnun sem gerð var um 90, þá hafi orðið töluverðar breytingar. Tegundir eins og stari hafa dreift sér og nokkrar andartegundir aukið útbreiðslu sína. Svo virðist sem útbreiðsla einhverra tegunda hafi dregist saman s.s. hjá sendlingum, kjóa og snjótittlingum.


Gunnar hefur á síðustu árum fylgst með ástandi kríunnar samhliða rannsóknum á sílamávi og segist hann sjá ótrúlega margt svipað þar. Þegar það gengur vel hjá kríunni, þá gengur einnig vel hjá mávinum. Þessir tveir fuglar eiga sér samnefnara sem við teljum vera sandsíli.

Á vorin veiðir Náttúrustofa Reykjanes nokkuð af sílamávi til rannsókna og merkinga. Í vor var mönnum ljóst að mávurinn var í betra líkamsástandi en oft áður. Þá fór varpið einnig betur af stað í vor en síðastliðin ár.

„Þetta veitti okkur ákveðna von um að þetta þýddi einnig betra start hjá kríunni sem virðist vera raunin víðast hvar á Reykjanesskaganum. Hún er yfirleitt seinna en mávurinn af stað. Hins vegar er ekki alltaf samræmi á milli þess að það sé gott upphaf á varpi og að það sé góður varpárangur,“ segir Gunnar Þór í samtali við Víkurfréttir. Hann segir að dæmi séu um góða byrjun en lélegan endi og öfugt. Til að varð heppnist vel þurfi að fara saman gott upphaf og góður endir. Gunnar segir því að bíða þurfi með að segja hvort kríunni takist vel til í ár fyrr en ungar eru komnir á flug.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Nýverið barst Víkurfréttum bréf frá fuglaáhugamanni sem sagðist hafa séð til máva vera að éta smáfugla. Við spurðum Gunnar Þór að því hvort þetta væri algengt.

„Á meðal máva eru alltaf einstaklingar sem sérhæfa sig í smáfugla- og ungadrápi. Mér hefur sýnst þetta vera svolítið mismunandi á milli landssvæða. Sílamávar á Suðurlandi og eins á svæðum á Norðurlandi, þar sem ég hef skoðað vörp, virðast oftar vera meiri afræningjar á eggjum og ungum en sílamávar á Suðurnesjunum. Fuglarnir hér eru meiri sjófuglar,“ segir Gunnar Þór. Hann segir þó að slíkir afræningjar finnist einnig á Suðurnesjum. Þá þekkist það, þó sjaldgæft sé á meðal máva, að þeir fara í ránfuglseðli og drepa fullorðna fugla. „Við höfum séð þá taka fullorðnar sandlóur og kríur. Þetta er ekki Gróusaga en hins vegar ekki almenna reglan hjá þeim,“ segir Gunnar Þór. Hann segir svona hegðun máva í raun sýna aðlögunarhæfni einhverra einstaklinga hverju sinni. Þeir kunni að bjarga sér.

Mikil breyting hefur orðið á varpútbreiðslu máva í aðal varpi þeirra á Miðnesheiðinni. Á árunum 1990 til 2000 voru varpsvæði allt í kringum Keflavíkurflugvöll og lögð var mikil áhersla á það hjá flugmálayfirvöldum að halda mávinum í skefjum og frá flugbrautum. Varpið náði hámarki í kringum 2004 þegar hér voru um 40.000 pör í varpi. Síðan þá hefur orðið mikill viðkomubrestur í fjölda varpfugla og árið 2006 voru ekki nema um 7.000 pör verpandi. Þá hafa þau fært sig norðar frá flugvellinum þannig að í dag eru fáir fuglar nærri Keflavíkurflugvelli. Þeir eru nær allir komnir á norðanverða Miðnesheiðina. Hættan að völdum máva í dag er hverfandi miðað við hvað hún var í kringum 2000.



Á þessu ári var birt grein í ritrýnda vísindatímaritinu European Journal of Wildlife Research  um samspil tófu og mávs á Miðnesheiði sem sýnir að mikil tengsl eru á milli þess þegar tófa gerir sér greni og að mávurinn flýr þær kringumstæður. Þar sem virkt greni var þá færðist jaðar varpsins fjær. Tófan hefur mikil fælingaráhrif í varplöndum mávsins og niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið eru í raun ótrúlegar. Gunnar Þór segir þó að í dag virðist sem viðbrögð máva við tófunni séu önnur en í kringum árið 2000. Hugsanlega eru þeir orðnir vanari tófunni í dag og kippa sér ekki eins upp við hana. Niðurstaðan er sú að tófan hafði mikil áhrif á útbreiðslu varpsins en hún hafði ekki áhrif á fjölda varpfugla. Fjöldi fugla í varpi er lang mest háður fæðuframboði eða síli í þessu tilviki. Sílið hrynur síðla árs 2005 og árið 2006 er algjört hrun í varpinu. Það er því sílið sem stjórnar því hversu margir verpa, segir dr. Gunnar Þór Hallgrímsson, forstöðumaður Náttúrustofu Reykjaness við Víkurfréttir.

Auk vöktunar leggur Náttúrustofa Reykjaness mikla áherslu á vandaðar vísindarannsóknir og hefur á síðasta ári og það sem af er þessu ári náð þeim merka áfanga að birta 6 greinar í ritrýndum alþjóðlegum vísindatímaritum. Náttúrustofan mun áfram leitast við að skila vísindalegri þekkingu til almennings sem og alþjóðasamfélagsins og vinna eins skilvirkt sem kostur er á þeim litla mannafla sem hún hefur yfir að ráða.

Listi yfir alþjóðlega ritrýndar vísindagreinar frá Náttúrustofunni frá 2011-2012 er hér að neðan:

1.    Migration pattern of Icelandic Lesser Black-backed Gulls Larus fuscus graellsii: indications of a leap-frog system

2.    Spatial contraction in a large gull colony in relation to the position of arctic fox dens

3.    The winter range of Nearctic Purple Sandpipers Calidris maritima on the East Atlantic flyway

4.    Sex ratio and sexual size dimorphism in Purple Sandpiper Calidris maritima chicks

5.    Observations of bi-parental brood attendance and care in Purple Sandpipers Calidris maritima

6.    FIRST TWO RECORDS OF EUROPEAN-BANDED LESSER BLACK-BACKED GULLS LARUS FUSCUS IN AMERICA