Krían fékk sér próteinbombu
„Kríur geta verið duglegar að pikka upp skordýr eins og mý og fiðrildi á landi og stundum einnig ánamaðka. Við vötn þar sem veiðimenn nota beitu (makríl, ánamaðk) þá tína kríurnar upp það sem eftir liggur. Mögnuð er hún krían,“ segir Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson hjá Náttúrustofu Reykjaness um meðfylgjandi mynd sem Hilmar Bragi tók við höfnina í Sandgerði í gærdag. Þar slóst krían við mávana um þá matarbita sem var að finna á bryggjunni. Á myndinni má sjá kríuna næla sér í próteinbombu, þ.e. bita af makríl.