Krefst einnar milljónar í skaðabætur - var átta klukkustundir í fangaklefa án skýringar
Liðlega sextugur Keflvíkingur hefur stefnt ríkinu til greiðslu einnar milljónar króna í skaðabætur fyrir að hafa verið handtekinn að ósekju. visir.is sagði frá.
Manninum var haldið í 8 klukkustundir í fangaklefa án þess að fá svo mikið sem skýringu á handtöku sinni og ekki var honum kynntur réttur sinn. Það var ekki fyrr en í lok vinnudags að fangaklefinn var opnaður og honum svo kynnt hvers vegna hann var handtekinn.
Að morgni 12. ágúst á síðasta ári var maðurinn á leið frá Keflavík til Reykjavíkur þar sem hann átti að mæta hjá lækni sínum. Á Vogastapa stöðvaði lögreglan för mannsins og handtók hann. Ekið var með manninn til Keflavíkur þar sem honum var stungið inn í fangaklefa. Handtakan átti sér stað klukkan 7.15. Maðurinn kveðst hvorki hafa fengið vott né þurrt meðan hann var í fangaklefanum.
Þegar klukkan var að verða hálffjögur síðdegis var hann fyrst tekinn til yfirheyrslu. Þá fyrst fékk hann vitneskju um það hvers vegna hann var handtekinn. Varðstjóri hjá lögreglunni í Keflavík hafði hringt á lögreglustöðina og tilkynnt að umræddur maður hefði þá um morguninn verið með alls konar hótanir og ógnanir í sinn garð. Maðurinn hefur hins vegar alfarið neitað að um slíkt hefði verið að ræða.
Engin kæruskýrsla lá fyrir af hálfu varðstjórans um morguninn og heldur maðurinn því fram að lögreglan hafi í rauninni ekki vitað hvert kæruefnið var við handtöku. Það var svo ekki fyrr en 5 dögum síðar að skýrsla var tekin af umræddum varðstjóra hjá lögreglunni í Keflavík. Í henni kom ekkert fram um hótanir, aðeins að maðurinn sem var handtekinn hefði verið með svívirðingar í garð varðstjórans. Varðstjórinn hélt því síðan fram að maðurinn hefði haft í frammi háskaakstur og kærði hann fyrir hótanir, svívirðingar og háskaakstur.
Vitni í málinu, starfsstúlka á Aðalstöðinni í Keflavík, sagði í skýrslu hjá lögreglu að hún gæti ekki staðfest með einum eða öðrum hætti að maðurinn hefði haft í hótunum við lögreglumanninn eða ógnað honum. Hins vegar hefði hann sagt við lögreglumanninn "að helvítis asninn ætti að koma sér í burtu". Hún sagði hins vegar að lögreglumaðrinn hefði kallað manninn "apa". Varðstjórinn var á leið af vakt þegar orðaskiptin áttu sér stað.
Frekari rannsókn fór ekki fram. Málið var sent ríkissaksóknara sem felldi málið niður liðlega mánuði eftir að umræddir atburðir áttu sér stað. Málið var sent dómsmálaráðuneytinu í maí síðastliðnum, með kröfu um miskabætur, en þaðan var málinu vísað til ríkislögmanns. Stefnandi í málinu hefur nú fengið gjafsókn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.