Fréttir

Krefjast þess að flugumferð verði beint frá íbúðabyggð
Fimmtudagur 28. júlí 2016 kl. 15:38

Krefjast þess að flugumferð verði beint frá íbúðabyggð

Bæjarráð Reykjanesbæjar beinir tilmælum til flugvallayfirvalda

Bæjarráð Reykjanesbæjar beinir þeim tilmælum til flugvallayfirvalda á Keflavíkurflugvelli, og flugfélaga sem nota flugvöllinn, að reynt verði eftir fremsta megni að draga úr og takmarka óþarfa ónæði sem íbúar Reykjanesbæjar verða fyrir vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Þetta kemur fram í bókun sem bæjarráð lagði fram í dag. Þar segir einnig að samhliða gríðarlegri aukningu flugumferðar allan sólarhringinn hefur svokölluð norður-suður braut verið lokuð vegna viðhaldsframkvæmda í sumar. Því fer öll umferð um austur-vestur brautina sem liggur beint yfir þéttri íbúðabyggð í Njarðvík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bæjarráð krefst þess að flugumferð á tímabilinu 23:00-07:00 verði sem mest beint um vestari enda flugbrautar, og að flugtaksferlar sem hannaðir eru til þess að valda sem minnstum hávaða og  ónæði, verði á sama tíma í forgangi ef nota á austari hluta flugbrautarinnar.

Flugyfirvöld eru hvött til þess að innleiða strax Reglugerð 666/2015 um rekstartakmarkanir vegna hljóðmengunar á flugvöllum sem staðsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Sú reglugerð gildir um flugvelli þar sem flughreyfingar eru fleiri en 50.000 á ári. Hreyfingar á Keflavíkurflugvelli voru yfir 40 þúsund á árinu 2015 og fjölgar þeim hratt.