Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Krefjast rannsóknar á sjóslysi
Jón Hákon BA 60 fórst í Aðalvík síðasta sumar. Mynd af vef Bæjarins besta, www.bb.is
Mánudagur 12. október 2015 kl. 14:46

Krefjast rannsóknar á sjóslysi

 „Viljum við hvetja þá sem koma að þessu máli að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna orsök slyssins og hví öryggisbúnaður virkaði ekki,” er meðal þess sem kemur fram í áskorun til yfirvalda um að rannsaka til hlítar sjóslys sem varð þann 7. júlí síðastliðinn er fiskibáturinn Jón Hákon BA 60 fórst í Aðalvík og með honum einn maður. Þremur úr áhöfninni var bjargað naumlega eftir að hafa setið á kilinum í klukkustund. 

Áskorunin var send í dag frá hópi fólks í Grindavík sem kemur að öryggismálum sjómanna. Í áskoruninni segir ennfremur að rannsaka þurfi slysið svo slíkt endurtaki sig ekki og að sjómenn búi ekki við falskt öryggi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjallað var um sjóslysið í Kastljósi á dögunum og í umfjöllun um málið á vef RÚV kemur fram að aðstandendur þeirra sem voru í áhöfn bátsins hafi harðlega gagnrýnt hvernig staðið var að rannsókn sjóslysanefndar. Ekki stendur til að ná flaki bátsins af hafsbotni og sagði rannsóknarstjóri sjóslysanefndar í viðtali við RÚV að ástæðan væri kostnaður og ótti við að skemma bátinn sem er á 80 metra dýpi. 

Undir áskorunina í dag skrifuðu Einar Hannes Harðarson, fyrir hönd Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Eiríkur Tómasson, fyrir hönd Þorbjarnar, Pétur Pálsson, fyrir hönd Vísis, Hermann Ólafsson, fyrir hönd Stakkavíkur, Stefán Kristjánsson fyrir hönd Einhamars Seafood og Steinar Þór Kristinsson, fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Þorbjörns.