Krakkarnir taka til í Reykjanesbæ
Krakkarnir á leikskólanum Gimli voru heldur betur duglegir í morgun. Á göngu sinni týndu þau upp rusl sem varð á vegi þeirra. Þau kíktu svo við á skrifstofu Víkurfrétta og sýndu okkur afraksturinn, heila tvo poka eftir stutta gönguferð.
Leikskólinn stendur þessa dagana fyrir grænni viku og með þessu vilja börnin vekja athygli á því að ganga vel um og hvetja um leið íbúa Suðurnesjanna til þess að huga vel að umhverfi sínu. Mikið hefur verið rætt um það að undanförnu að svo virðist sem það sé að færast í aukana að rusli sé dreift á víðavangi. Nú er einnig sýnilegt allt það rusl sást ekki jafnvel yfir veturinn og kominn tími til þess að taka til hendinni eins og þessi börn ætla sér að gera á næstunni.
Markmið grænu vikunnar eru að auka vitund foreldra og skerpa á þekkingu barna og kennara. Meginmarkmið skólans til þessa hafa verið að flokka allt sorp sem fellur til á hverjum degi.
Til gamans má geta að í Grænu vikunni mun skólinn taka í notkun nýjar flokkunartunnur og eru foreldrar hvattir til þess að kynna sér tunnurnar.
Dagskrá grænu vikunnar á Gimli:
Mánudagur 23. april
Börnin fara í vettvangsferðir um sitt nánasta umhverfi og taka upp rusl, meðal annars hjá vinum þeirra eldri borgurum við Selið og Nesvelli. Ruslið flokkum við og vinnum með í vikunni.
Þriðjudagur 24. april
Elstu tveir kjarnar bjóða nemendum frá Njarðvíkurskóla með sér í Barnalund frá kl 10.00-11.00. Tiltekt á svæðinu. Þar verður sett upp skilti sem börnin í Njarðvíkurskóla hafa útbúið með nafni svæðisins og fuglahús sem leikskólabörn hafa smíðað.
Allir nemendur skólans koma með eina fernu (mjólkur/svala eða djús fernu) að heiman. Muna að skola hana vel!
Miðvikudaginn 25.april - Dagur umhverfisins
Skólinn verður opinn foreldrum og öðrum gestum frá kl. 9.30-10.30, til þess að kynna sér starfsemi skólans í umhverfismálum. Umhverfisvinnustöðvar verða settar upp í skólanum.
Foreldrum boðið upp á 3 mánaða fría áskrift frá Íslenska Gámafélaginu, af Grænu tunnunni
Fimmtudagur 26.april
Börnin vinna í umhverfisvinnustöðvum.
Föstudaginn 27.april
Umhverfisvænn og skemmtilegur söngfundur í Barnalundi kl.10.00-11.00. Þangað marsera allir nemendur skólans ásamt kennurum og eiga ljúfa söngstund á vinastaðnum okkar. Foreldrar hjartanlega velkomnir.
VF-Myndir: [email protected]