Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Krakkakosningar í Heiðarskóla
Fimmtudagur 2. nóvember 2017 kl. 06:00

Krakkakosningar í Heiðarskóla

- Fengu smjörþefinn af kosningaferlinu

Nemendur í Heiðarskóla fengu að upplifa hvernig kosningar ganga fyrir sig í síðustu viku. Hugmyndin að kosningunum kom frá KrakkaRÚV sem efndi til krakkakosninga vegna Alþingiskosninganna sem fram fóru um síðustu helgi. Skólastjórnendur Heiðarskóla, þau Haraldur Axel og Bryndís Jóna, voru glöð með verkefnið og vonast til þess að þau geti gert þetta aftur.

Kosningar eru lýðræðishátíð
„Einn af grunnþáttum menntunar er lýðræði og mannréttindi. KrakkaRÚV og umboðsmaður barna voru með þetta flotta verkefni og við ákváðum að stökkva á vagninn, nýta tækifærið og leyfa nemendum Heiðarskóla að taka þátt í þessari lýðræðishátíð sem kosningar eru,“ segir Haraldur Axel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alþingismenn framtíðarinnar í Heiðarskóla
Nemendur fengu að horfa á stutt kynningarmyndbönd þar sem allir flokkarnir kynntu sín málefni og Haraldur segir nokkra hafa velt fyrir sér auknu samstarfi flokkanna. „Við erum með framtíðarpólitíkusa hér í Heiðarskóla sem hafa fengið pólitíkina með móðurmjólkinni. Svo var nemandi í 1. bekk sem merkti við alla flokkana á kjörseðlinum og ætli að hann sé ekki að kalla eftir auknu samstarfi allra flokka á Alþingi, ég geri a.m.k. ráð fyrir því. Aðalmálið er samt sem áður að krakkar fái að upplifa lýðræði, kosningar og kerfið okkar. Hjá okkur er pólitíkin ekki það sem skiptir öllu máli í þessu verkefni, heldur kerfið og lýðræðið.“

Getur Alþingi afnumið heimanám?
Nemendur hafa velt kosningunum svolítið fyrir sér á göngum skólans en ýmsar umræður mynduðust að sögn Bryndísar. „Þau eru sérstaklega að velta fyrir sér einu kosningarloforði en það er hvort það sé hægt að taka heimanám af, þar sem einhverjir flokkar lofuðu því. Þau velta því nefnilega fyrir sér hvort Alþingi hafi heimild til þess að afnema heimanámið. Svo var einn nemandi sem var alveg harðákveðinn í því að kjósa þann flokk sem ætlaði að vera góður við náttúruna, hann var ekki að nefna hvaða flokkur það var og horfði bara eftir því hvaða flokkur ætlaði að hugsa um landið og náttúruna.“

Vonast til þess að taka þátt aftur
Bryndís segir að verkefnið hafi gengið vel, allir bekkir fengu að kjósa, frá 1. bekk og upp í 10. bekk og rúlluðu krakkarnir þessu upp. „Þau báru mikla virðingu fyrir þessu og skiluðu inn sínu atkvæði. Nemendur veltu kosningunum mikið fyrir sér og fengu kynningu á því hvernig kerfið virkar og markmiði verkefnisins þar með náð. „Ég á von á því að þetta verði partur af okkar skólastarfi þegar og ef þetta verður aftur í boði.“