Krafa að HSS fái hlutfallslega jafna fjárveitingu og aðrar heilbrigðisstofnanir
Það er krafa íbúa Garðs að HSS fái hlutfallslega jafna fjárveitingu og aðrar heilbrigðisstofnanir til þess að tryggja íbúum á Suðurnesjum lögboðna heilbrigðisþjónustu. Þetta segir í bókun sem samþykkt var samhljóða á bæjarstjórnarfundi í Garði í gær.
Bókunin er svohljóðandi:
„Bæjarstjórn Garðs skorar á stjórnvöld að tryggja góða þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja við íbúa Garðs og Suðurnesja.
Málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eru aftur í kastljósi fjölmiðla vegna niðurskurðar og skerðingu á þjónustu. Íbúar á Suðurnesjum hafa á undanförnum árum í tíð margra heilbrigðisráðherra þurft að horfa upp á stefnuleysi í rekstri stofnunarinnar og ónóg framlög til reksturs hennar. Heilsugæslunni í Garði var lokað fyrir tveimur árum, en samkvæmt lögum eiga íbúar Garðs rétt á starfandi lækni, hjúkrunarfræðing og ritara í heimabyggð. Án þessarar þjónustu hafa íbúar Garðs treyst á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ sem nú er gert að skera niður í rekstri sínum.
Það er krafa íbúa Garðs að HSS fái hlutfallslega jafna fjárveitingu og aðrar heilbrigðisstofnanir til þess að tryggja íbúum á Suðurnesjum lögboðna heilbrigðisþjónustu.
Ef aðkoma sveitarfélaganna á Suðurnesjum að rekstri HSS með samningi við heilbrigðisráðuneytið tryggir stöðuleika í rekstri stofnunarinnar og þjónustu við íbúa á Suðurnesjum er bæjarstjórn Garðs tilbúin til sameiginlegra viðræðna sveitarfélaga á Suðurnesjum við ríkið um slíkan samning.“
---
VFmynd/elg - HSS fékk á dögunum vatnsboga í afmælisgjöf frá Brunavörnum Suðurnesja.