Kræklingaræktun í Vogum lofar góðu
Kreppan á sínar jákvæðu hliðar. Hún hefur myndað svigrúm fyrir nýjar hugmyndir. Í atgangi góðærisáranna svokölluðu var nóg að gera hjá öllum og minni tími til að hlúa að hugmyndum og hrinda þeim í framkvæmd. Þórður Guðmundsson, vélvirki í Vogum á Vatnsleysuströnd, var lengi búinn að velta því fyrir sér að fara út í tilraunir með kræklingaræktun. Sömuleiðis Sigurþór Stefánsson. Þegar þeir félagar hittust snemma á síðasta ári kom þessi sameiginlegi áhugi þeirra til tals og í framhaldinu ákváðu þeir að fara af stað í verkefnið. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.
Ótrúlegur árangur
Þeir félagar settu fyrstu línurnar út þann 17. júní á síðasta ári. Óhætt er að segja að þeir félagar hafi rennt blint í sjóinn því kræklingaræktun á sér enga sögu á þessu svæði. Fyrir tæpum 30 árum síðan var gerð tilraun með slíka ræktun út af Vatnsleysu en hún fluttist síðan upp í Hvalfjörð en gekk ekki þar, að sögn Þórðar. Þeir félagar lögðu línurnar út af Stapanum og nýttu sér festar sem þar voru fyrir og tilheyrðu laxeldi sem þar var.
„Tilraunin okkar gengur út á að gera þetta fyrir opnu hafi en ekki í skjóli við eyjar og firði. Við erum með norðvestanáttina beint af hafi. Fæðuframboðið er náttúrulega númer eitt tvö og þrjú. Hitastigið skiptir ekki eins miklu máli. Það má segja að við séum með Golfstraumstungu inn til okkar og stöðugan straum meðfram Stapanum og hringinn í Bugtinni. Enda er vöxtur skeljarinnar alveg ótrúlegur. Við lögðu línu þarna út þann 17. júní. Þá áttum við von á að fanga lirfu sem var að hrygna í vor en skelin hrygnir svolítið fyrr hér heldur en í Eyjafirðinum. Við vorum þá að vonast eftir því að vera komnir með sýnilega skel um áramótin. Hún átti þá að vera orðin rúmur millimetri. En í september var hún orðin 15 millimetrar. Núna er stærsta skelin komin upp í 32 millimetra þannig að við sjáum fram á að vera komnir með markaðshæfa skel jafnvel næsta haust. Á öðrum stöðum er talað um að þetta sé um 3ja ára ferli,“ segir Þórður aðspurður um árangur ræktunarinnar fyrstu mánuðina.
Stefnt að aukinni ræktun
Aðspurður segir Þórður markaðsaðstæður afar góðar fyrir þessa afurð. „Það er mikið verið að hvetja menn til að fara út í þetta. Stærsti markaðurinn er samt í Evrópu en skelin er flutt lifandi á markað. Það sem ekki er markaðshæft vegna útlitsgalla, s.s. brotin skel, fer í niðursuðu,“ segir Þórður.
Eruð þið stórtækir í þessu?
„Nei, við fórum eftir því sem kunningjar okkar í Kanada ráðlögðu okkur, þ.e. að fara ekki í meira magn en við réðum við í tilrauninni. Lögðum bara út tvær línur til að byrja með því við erum að renna blint í sjóinn til að sjá hvort þetta sé hægt áður en við færum að leggja meira undir. En byrjunin lofar góðu og gefur tilefni til að tífalda ræktunarrýmið í sumar með því að setja út fleiri línur,“ segir Þórður.
„Það er réttara að kalla þetta ræktun en ekki eldi því við setjum bara út aðstæður fyrir skelina. Hún kemur sjálfviljug á línurnar og sér alfarið sjálf um sína fóðrun. Þess vegna erum við að berjast við Landbúnaðarráðuneytið um að kalla þetta ræktun en ekki eldi.
Við teljum þetta mínusmegun því skelin hreinsar sjóinn, en um 40 lítrar af sjó fara í gegnum hverja skel á sólarhring,“ útskýrir Þórður.
Gæti skapað störf í framtíðinni
Að sögn Þórðar er ekki mikil vinna í kringum ræktunina á þessu stigi en ef vel tekst til gæti hún skapað nokkur störf í framtíðinni. „Núna er vinnan við þetta aðallega fólgin í stöðugu eftirliti með línunum og að fylgjast með framvindunni. Við erum með línurnar niðri á ákveðnu dýpi og þurfum að fylgjast með þeim vegna þess að þær þyngjast eftir því sem skelin stækkar,“ segir Þórður.
„Ef við tökum mið af þessari starfsemi í Hrísey þá eru sjö störf í kringum þetta þar. Þeir eru samt stutt á veg komnir og eru ennþá á tilraunastiginu. Ef við náum að komast í 200 tonnin, sem er alls ekki óraunhæft, þá erum við strax komnir með heilsársstörf fyrir einhvers staðar á bilinu 5 – 10 manns og einhverja fleiri sem koma að þessu í törnunum þegar verið er að flokka og flytja hana út.
Með því að koma upp flokkunar- og pökkunarstöð hér á svæðinu væri vel hægt skapa störf fyrir 20 manns. Markaðurinn fyrir kræklinginn er yfirdrifinn og markmið okkar er að komast í 2 þúsund tonna framleiðslu innan 10 ára. Markaðsverðið á þessu er 2-3 evrur á kíló og skilaverð um 1,5 evra til ræktanda. Þannig að þetta er bara allt mjög jákvætt,“ sagði Þórður kræklingaræktandi í Vogum.