Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 25. apríl 2000 kl. 21:00

KR Íslandsmeistari - Sigruðu Grindavík 83:63

KR-ingar voru að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik í fjórðu viðureign sinni við Grindavík. Leikurinn fór fram í KR-heimilinu. Lokastaðan var 83-63 fyrir KR og unnu því KR-ingar einvígi liðanna með þremur sigrum gegn einum sigri Grindavíkur.Grindvíkingar byrjuðu betur í leiknum og voru betri aðilinn allan fyrri hálfleikinn, enda voru þeir yfir í hálfleik, 31:34. Í síðari hálfleik hrundi sóknarleikur Grindvíkinga og KR-ingar sem tvíefldust fyrir vikið, skoruðu 14 fyrstu stigin í hálfleiknum. KR-ingar héldu síðan áfram að auka muninn, þar til Grindvíkingar náðu að klóra í bakkann og minnkuðu muninn í 50:46 og síðan 53:51. Lengra komust gestirnir ekki og þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum voru KR-ingar komnir með afgerandi forystu, 69:55 og náðu svo að auka muninn í 20 stig, 83:63. KR-ingurinn Keith Vassel var besti maður vallarins og skoraði 21 stig, auk þess sem hann hirti 17 fráköst. Jonathan Bow lék einnig mjög vel og skoraði 14 stig, þá gerðu Ólafur Jón Ormsson og Jesper Sörensen 12 stig hvor. Brenton Birmingham var atkvæðamestur Grindvíkinga í leiknum og skoraði 18 stig, Guðlaugur Eyjólfsson gerði 14 stig og Pétur Guðmundsson 13. “Við vorum með leikinn í höndunum allan fyrri hálfleikinn, en KR-ingar fengu sjálfstraust í byrjun síðari hálfleiks. Þá kom fimm mínútna kafli þar sem ekkert gekk upp hjá okkur og KR notfærði sér það að sjálfsögðu Eftir það vorum við að elta þá og komumst ekki nær en í tveggja stiga mun,” sagði Pétur Guðmundsson, fyrirliði Grindvíkinga að leik loknum. “Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum stuðningsmönnum okkar fyrir góðan vetur, sem og öllum þeim sem stóðu að körfunni í Grindavík í vetur.”
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024