Kostnaður við viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja rúmur hálfur milljarður
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær voru samþykkt drög að samningi á milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og Menntamálaráðuneytis og Fjármálaráðuneytis um viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hlutur sveitarfélaga á Suðurnesjum í kostnaði við viðbyggingu Fjölbrautaskólans er tæpar 200 milljónir króna en sveitarfélögin greiða 40% kostnaðar. Framlag ríkisins er 60% eða tæpar 350 milljónir króna. Heildarkostnaður verksins er 546 milljónir króna. Kostnaður Reykjanesbæjar verður um 130 milljónir eða 65% af hlut sveitarfélaganna. Grindavíkurbær greiðir tæp 14% eða um 28 milljónir og Sandgerði greiðir um 8% kostnaðar eða rúmar 16 milljónir króna. Garður greiðir rúm 7% kostnaðar eða um 14 milljónir og Vogar greiða 10 milljónir sem er um 5% kostnaðar.