Kortleggur orkunotkun og finnur leiðir til sparnaðar

Í vor voru auglýst tíu sumarstörf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur í Grindavík. Meðal annars var auglýst starf á tæknideild Grindavíkurbæjar. Friðrik Valdimar Árnason byggingafræðingur var ráðinn til starfans en hans sérfag er orkutækni og hefur hann m.a. unnið að því að kortlegggja orkunotkun hjá stofnunum bæjarins og lagt til endurbætur til þess að draga út notkuninni og spara.

Friðrik Valdimar er Vogabúi og bjó þar til tvítugs og flutti þá til Reykjanesbæjar þar sem hann bjó í um tvö ár áður en hann flutti ásamt unnustu og tveggja ára syni til Óðinsvé í Danmörku. Eftir þrjú og hálft ár í þeirri frábæru borg fluttu þau til Kaupmannahafnar til að læra meira og einnig til að búa í borginni áður en þau færu aftur til Íslands.

„Ég útskrifaðist sem byggingafræðingur frá Óðinvéum og svo lærði ég orkutækni í Kaupmannahöfn sem felst aðallega í því að minnka orkunotkun í byggingum og iðnaði. Námið er mjög fjölþætt og er t.d. farið mikið út í sólarsellur, vindmyllur, loftræstingu og lagnir í byggingum. Einnig var farið í að orkumerkja byggingar eins og er gert við raforkutæki og komið með tillögur af endurbótum á byggingunni til að minnka orkunotkun. Þannig er íbúðarkaupandinn betur upplýstur um ástand byggingarinnar,“ segir Friðrik Valdimar við heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Í sumarstarfinu hjá tæknideildinni hefur Friðrik Valdimar m.a. séð um skráningu fasteigna, skönnun teikninga, lóðarblaða o.fl. En sérhæfing hans hefur einnig komið að góðum notkun og hefur hann m.a. fengist við að kortleggja orkunotkun hjá Grindavíkurbæ.

„Eitt verkefnunum er að greina orkunotkun á hafnarsvæðinu til að fá yfirsýn yfir orkuþörfina. Með slíkri greiningu er hægt að finna út hvaða endurbætur þarf að gera til að draga úr orkunotkuninni. Einnig skoðaði ég grunnskólann og þar er hægt að spara margar krónur með tiltölulega litlum endurbótum sem borgar sig til baka á örfáum árum.  Jafnframt er ég að skrá og fara yfir lýsingu á ljósastaurum í Grindavík en markmiðið er að draga úr orkunotkun í lýsingu,“ segir Friðrik Valdimar.

Hann segir að reynsla sín sé að bæjarfélög og fyrirtæki geti virkilega dregið úr sinni orkunotkun með því að hafa betri yfirsýn yfir notkunina og gera smávægilegar endurbætur til að minnka rafmagnsreikninginn.