Körfuboltinn rúllar eftir Suðurstrandarvegi
Það verða nágrannabæirnir Grindavík og Þorlákshöfn sem leika til úrslita í Iceland Express deild karla í körfuknattleik þessa leiktíðina.
Bæjarfélögin, Grindavík og Sveitarfélagið Ölfus, urðu formlega nágrannasveitarfélög sl. haust þegar Suðurstrandarvegur var formlega opnaður.
Suðurstrandarvegur liggur á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og er 58 km. langur. Vegurinn styttir leiðina umtalsvert frá því sem áður var og er vegurinn beinn og breiður ef svo má að orði komast. Hann á a.m.k. ekki að aftra stuðningsmönnum körfuknattleiksliðanna að komast styðstu leið á milli íþróttahúsanna til að hvetja sín lið áfram í úrslitaleikjunum sem framundan eru en á góðum degi er þessi leið farin á um 40 mínútum.
Hvort vegalögreglan sýni leiðinni meiri áhuga nú í ljósi þeirrar staðreyndar að umferð mun aukast mjög um veginn á næstu dögum, verður að koma í ljós.
Svona verður spilað:
1. leikur 23. apríl kl. 19.15 Grindavík-Þór
2. leikur 26. apríl kl. 19.15 Þór-Grindavík
3. leikur 29. apríl kl. 19.15 Grindavík-Þór
4. leikur 2. maí ef þarf kl. 19.15 Þór-Grindavík
5. leikur 4. maí ef þarf kl. 19.15 Grindavík-Þór