Kóreubúar forvitnir um speglaða kennslu
Gera heimildarþætti þar sem Ísland er í brennidepli
Fréttamenn suður-kóreska ríkissjónvarpsins eru staddir hérlendis um þessar mundir í þeim tilgangi að kynna sér svokallaða speglaða kennslu. Keilir á Ásbrú hefur verið leiðandi í slíkri kennslu hérlendis, en grunnskólar í Reykjanesbæ hafa einnig innleitt kennsluna hjá sér. Hjálmar Árnason hjá Keili sagði í samtali við Víkurfréttir að þriggja þátta sería sé í vinnslu hjá kóreska sjónvarpinu, en sjónvarpsmenn hafa verið hér síðustu þrjá daga að kynna sér kennsluna undir handleiðslu Hjálmars.
Spegluð kennsla snýst um að hefðbundinni kennslu er snúið við þar sem fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni. Hér að neðan má sjá fræðandi myndband um speglaða kennnslu.