Fréttir

Konungur götunnar
Föstudagur 31. júlí 2015 kl. 07:00

Konungur götunnar

- Þetta snýst allt um að koma með drusluna heila heim

Elmar Þór Hauksson er sannkallaður konungur götunnar en hann fór með sigur af hólmi í King of the street keppni Kvartmíluklúbbsins á dögunum. Hann hefur stundað kvartmíluna frá 19 ára aldri og segir félagsskapinn góðan - þótt pulsurnar séu ekki góðar í sjoppunni.

Suðurnesjamenn eru duglegir að stunda kvartmíluna enda eina braut landsins stutt frá í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð. Flestir iðkendurnir koma því af höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þótt eitthvað sé um það að keppendur komi að norðan. Þess má geta að hraðskreiðasti Fordinn á Íslandi kemur frá Keflavík og er í eigu Kjartans Kjartanssonar sem er elsti iðkandi íþróttarinnar í dag.  Við hittum Elmar á þriðja Íslandsmótinu í sumar sem haldið var sl. laugardag en þar fylgdist hann með keppni ásamt því að taka á móti árnaðaróskum frá félögum sínum sem voru stoltir af sínum manni og greinilegt að iðkendur í kvartmílu halda vel hópinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Elmar kom fyrst á kvartmílubraut árið 2003 þá 19 ára gamall og ók þar fyrsta bílnum sem hann eignaðist sem var Pontiac Trans Am.

„Vinur minn Árni Már Kjartansson var í kvartmílu og er enn og ég var búinn að fara með honum áður og fylgjast með. Ég byrjaði að mæta á æfingar á Trans Aminum en keppti þó aldrei á honum. Það var svo eftir að ég seldi hann og keypti Playmouth Road Runner árið 2005 að ég fór að keppa . Þá langaði mig í eldri bíl sem myndi henta betur í kvartmílu. Sá bíll var tilbúinn að flest öllu leyti nema ég lagaði vélina í honum. Ég keppti svo á honum til ársins 2010 en þá keypti ég Playmouth Valiant og setti í hann vélina úr Road Runner.”
Allt eru þetta amerískir bílar - hverju veldur? „Af því að annað er rusl”, segir Elmar einfaldlega og hlær.

King of the street

Gerðar voru breytingar á fyrirkomulagi keppninnar King of the street í ár og virtist hún gera keppnina meira spennandi enda var baráttan hörð í öllum flokkum. Keppt var í flokki bíla og hjóla og sigraði Elmar í flokki bíla en í þriðja sæti varð Suðurnesjamaðurinn Kristján Finnbjörnsson. Nýja keppnisfyrirkomulagið reyndi meira á ökumanninn og gerði mönnum erfiðara fyrir að draga uppi andstæðinginn eftir start þótt þeir hafi meira afl.

„Þetta var útsláttarkeppni og búið var að stytta brautina um helming og breyta ljósunum. Keppt var á Pro tree ljósum þannig að þú færð enga viðvörun áður en þú ferð af stað og þarft að vera vel vakandi en á Standard tree sérðu ljósin telja niður. Þetta var prófað til þess að fá fleiri keppendur þar sem þátttaka hefur dalað og held ég að það hafi alveg skilað sínu. Mótherji minn svaf aðeins á ljósunum og var með bíl sem er erfitt að hemja svo ég hafði sigur á 6.37 km hraða og 111 mílum,“ segir Elmar hógvær. Þess má geta að bifreiðin er 1.83 sek í hundrað km hraða.

Hvað er það við kvartmíluna sem heillar?
“Adrenalínið. Þetta er bara gaman - og góður félagsskapur. Það er bara margt, þó ekki pulsurnar í  sjoppunni, segir Elmar og hlær.

„Þetta er aðallega félagsskapurinn. Það er þéttur hópur í kvartmílunni á Íslandi enda ekki nema um 30 manns sem stunda þessa íþrótt. Menn skiptast á upplýsingum og veita ráðgjöf og styðja þannig við hvern annan. Mest hafa um 50 manns verið að keppa en það var í góðærinu þegar allir gátu gengið inn í umboð og fengið lán. Þetta er dýrt sport en getur þó verið þokkalega hagkvæmt ef það bilar ekki mikið. þetta snýst um að koma með drusluna heila heim.“


Það er verið að nudda í þessu allan veturinn
Vinnan á bak við kvartmíluna fer að mestu fram á veturna en þá er legið yfir bílnum og hann undirbúinn fyrir keppni sumarsins.

„Það er verið að nudda í þessu allan veturinn. Það þarf að huga að vél og skiptingu, drifinu og hvaðeina sem fellur til hvort sem það er fjöðrun, stýrisbúnaður, bremsur, rafkerfi, bensínkerfi og bara allt.”
Elmari til aðstoðar í bílastússinu er faðir hans Haukur Friðjónsson og bróðir Guðjón Örn, en faðir Elmars smíðaði kassabíla fyrir synina þegar þeir voru litlir pjakkar. “Maður var dreginn út um koppa og grundir að horfa á torfæru og rallý en hann hafði þó aldrei farið á kvartmílu fyrr en ég dró hann með mér. Nú er hann að aðstoða mig í skúrnum, réttir mér skrúfjárn og svona, “ segir Elmar og hlær. „Það er mjög góð aðstoð í því og hann mætir alltaf á brautina þegar ég er að keppa. Hann er sjálfur mikill bílakall þannig að líklega er þetta í genunum.”

En hvað þarf maður til að ná árangri?
„Vera á hraðskreiðum bíl,” segir Elmar og er nú aðeins að grínast í blaðamanni. „Það skiptir auðvitað mestu máli að vera á aflmiklum bíl en það er líka mikilvægt að þekkja vel inn á bílinn sinn, kynnast honum vel og vita hvað hann getur.”

Elmar þekkir bíla vel en honum telst til að hann eigi eina sex talsins, í misjöfnu ástandi þó. Hann starfar í kringum bíla allan daginn, sér m.a. um afgreiðsluna hjá Nýsprautun og keyrir rútur í frístundum. Aðspurður segist hann ekki fá nóg af bílum, en best finnst honum þó að vera eigin herra á gröfu eða vörubíl einhvers staðar úti í móa.

Kvartmíluklúbburinn hefur byggt upp góða aðstöðu bæði fyrir keppendur og iðkendur en brautin er fyrsta sérbyggða spyrnubraut Evrópu. Þá hefur nú bæst við hringakstursbraut sem jafnframt er ökugerði  en þar verður m.a. keppt í skriðakstri  og er hún 1650 metrar að lengd. Félagið er 40 ára í ár og eru félagsmenn um 300 talsins. Þó vantar að sögn Elmars eitthvað upp á fjölda keppenda og meiri þátttöku í íþróttinni og hvetur hann sem flesta sem hafa áhuga að mæta á æfingu og prófa.

„Menn þurfa bara að vera skráðir í félagið til þess að geta tekið þátt í æfingum. Áhuginn er alveg til staðar en stundum er eins og menn sé ragir að prófa - halda að þeir keyri  of hægt eða séu ekki nógu góðir að skipta um gír og þess háttar. En þessi vettvangur er til þess að æfa sig - til þess að gera betur, “ segir Elmar og leggur áherslu á orð sín. „Þú getur bara komið á þínum bíl og prófað. Kvartmíla er íþrótt og það er alveg jafnspennandi að horfa á tvo venjulega fólksbíla spyrna eins og 800 hestafla bíla, þetta er alltaf barátta. Menn fá ekki bakteríuna nema þeir kynnist þessu og prófi. Ég segi oft frá því að ég fór brautina á 16.48 sek í fyrsta sinn en minn besti tími í dag er 10.02 sek. Þegar menn eru farnir að æfa geta þeir farið að betrumbæta og keppa.”

Elmar ætlar að eigin sögn að taka því rólega í kvartmílunni það sem eftir er sumars en kannski taka eina keppni. „Ég ætla að mæta á einhverjar æfingar og síðustu keppnina, reyna að komast í 9.80 sek 402 metra, það er markmiðið.”

Mynd: Hér má sjá t.h. Road Runner sem Elmar hefur keppt á

Mynd: Elmar í miðri spyrnu

Mynd: Frá verðlaunaafhendingu í King of the street