Konungar senda kveðjur til Grindvíkinga
Svíakonungur og Bretakonungur senda báðir kveðjur til Grindvíkinga í samtali og bréfi til forseta Íslands. Þetta kemur fram í færslu Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Facebook síðdegis.
„Í morgun átti ég símafund með Karli Gústafi Svíakonungi. Hann óskaði eftir samtali vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga og lét í ljós stuðning og samúð sænsku þjóðarinnar. Það sama gerði Karl Bretakonungur í bréfi sem hann sendi mér fyrir helgi. Þau Kamilla drottning lýstu þar aðdáun sinni á starfi viðbragðsaðila á Íslandi og tjáðu samhug sinn með Grindvíkingum sem hafa þurft að flýja heimili sín. Gott er að finna fyrir hlýhug og stuðningi grannþjóða þegar á reynir. Má þá nefna líka frændur okkar í Færeyjum sem hafa lagt söfnun Rauða krossins lið til styrktar Grindvíkingum,“ segir í færslu Guðna forseta.
Þá vitnar Guðni einnig til kveðju sem hann sendi á íbúafund Grindvíkinga. „Rúm vika er nú liðin frá því að gos hófst við Grindavík og hraun flæddi yfir byggð í fyrsta sinn á Íslandi í hálfa öld. Þótt eldsumbrotum sé lokið að sinni er ljóst að straumhvörf hafa orðið við Grindavík. Við vitum núna að ekkert verður þar sem fyrr. Nú þarf nýjar lausnir, ný svör og ný heimili til lengri eða skemmri tíma. Þetta þarf að vera sameiginlegt markmið okkar Íslendinga.“