Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 23. maí 2002 kl. 17:04

Konráð Lúðvíksson yfirlæknir í viðtali: Sjúkrahúsið markaðssett erlendis

Konráð Lúðvíksson læknir hefur varpað fram hugmyndum um markaðssetningu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja bæði innan lands sem utan. Hann vill fá hafnfirskar konur til að koma til Suðurnesja til að fæða sín börn og nefnir þá hugmynd að Suðurnesjamenn eigi að greiða þeim 10.000 kr. fyrir hverja fæðingu. Konráð er einnig stórtækari og sér fyrir sér að flogið sé með sjúklinga frá Bandaríkjunum til Suðurnesja þar sem boðið sé upp á sérstakar aðgerðir á nýjum skurðstofum í nýju D-álmunni. Konráð var af mörgum talinn óskrifað blað þegar kom að pólitískri afstöðu. Hann kom mörgum á óvart þegar nafn hans sást á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir komandi kosningar. Hilmar Bragi Bárðarson tók Konráð tali á dögunum þar sem hann gerði grein fyrir hugmyndum sínum er varða sjúkrahúsið í Keflavík og markaðssetningu þess. Einnig ræddum við önnur mál sem eru Konráði hugleikin.Að fá afl utan frá er engin ögrun við þá sem fyrir eru
Tal okkar berst strax að þeirri ákvörðun að taka sæti á framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Konráð segir að með tilkomu Árna Sigfússonar sem greinilega sé eldhugi, sem kýs að leggja allt í sölurnar hafi hann ákveðið að taka þátt í starfinu. Að vísu átt það að vera almennur stuðningur, en þessi leið þótti heppilegust.
"Árni kemur inn sem vítamínsprauta með málefni sem eru uppbyggileg fyrir þetta bæjarfélag. Hann er með áherslu á ný viðmið. Mannræktarstefnu, fjölskylduna, menningarmál, umhverfið og skólamálin. Ég hef alltaf haft mæti á eldhugum", segir Konráð um Árna Sigfússon. "Það er eitthvað jákvætt sem fylgir honum sem ég er tilbúinn að aðhyllast. Ég hef aldrei þekkt þennan mann. Hann kemur inn með þetta hugarfar að breyta áherslum - að virkja hitt jákvæða í okkar lífi. Ég varð fastur á þeim krók og fann samleið með Árna. Svona svæði þarf að fá samnefnara sem kemur utan að. Til að segja okkur hvað svæðið býður uppá. Hér er fullt af afburða fólki. Fortíðin bindur okkur niður og við erum að taka tillit til skoðanna nágranna og samherja. Að fá afl utan frá er engin ögrun við þá sem fyrir eru, heldur viðbót".

Samfélagið er að breytast
- Hvernig sérðu samfélagið sem við búum í?
"Þetta samfélag er byggt af afar dugmiklu fólki sem hefur komið víða af landinu af því að það hefur eygt möguleika á að ná efnahagslegri hagsæld hér. Það hefur einkennt þetta svæði allt frá því á hernámstímum þegar uppbyggingin var hér sem hröðust og heilu landshlutarnir tæmdust hingað. Samfélagið er að breytast. Menn líta umhverfið öðrum augum í dag. Áður fyrr var það efnahagsleg velmegun sem skipti öllu máli Það var tign að hafa eitthvað umleikis. Allar nýjungar fyrstar hér í Keflavík. Ljósin skærari og bílar stærri.Það var lögð rækt við útlitið, en minna á hin mjúku mæti. Hér byggðust á tímabil upp tvö samfélög hlið við hlið með ólíku siðferðismati. Keflvísk æska klæddist fötum sem annars staðar þekktist ekki og jólaljósin blikkuðu skærar. Samt var umhverfið kalt og gróðurvana og orðsporið útávið ekki beinlínis jákvætt. Mikil breyting hefur átt sér stað að undanförnu. Hlúð er að umhverfinum og aukið mannræktarstarf fer fram í hvívetna. Stundum er maður þó minntur hastarlega á það þegar við horfumst í augu við hvern vofeiflegan atburðinn eftir annan meðal æskufólks að kannski hafi eitthvað orðið eftir í grundvallar upppbyggingu mannlegs samfélags og þar þurfi að taka til hendinni..


Svæðið vantar meira af vel menntuðu fólki
Konráð talar um að viðhorf manna á Suðurnesjum hafi breyst mikið síðustu ár, t.d. í skólamálum. Samdræmd próf sýndu nemendur ekki vera að ná góðum árangri. "Nú er búið að leggja grunn af nýrri skólastefnu með einsetningu skólanna. Skólastefnan er nú metnaðarfyllri og við erum á uppleið. Hún græðir jarðveginn fyrir afkomendur okkar. Vonandi ber skólastarfinu og þeim mönnum sem þar ráða gæfa til að fylgja málum eftir. Svæðið vantar meira af vel menntuðu fólki. Fjölbrautaskólakennarar eru af stórum hluta utan svæðis. Sömu sögu er að segja af læknum heilsugæslustöðvarinnar. Einn af ellefu býr á þessu svæði. Við erum að sækja menntað fólk út fyrir svæðið, greiða því laun en það borgar skattana sína annars staðar.

Skógrækt inn í skólakerfið
Konráð hefur til fjölda ára verið mikill skógræktarmaður og látið umhverfismál sig miklu varða. Sumir aðhillast ræktun, aðrir íþróttir og Konráð segir það heilmikið átak að fá fólk til að rækta skóga á Suðurnesjum. "Það hefur ekki verið hluti af lífssýn fólksins, enda svæðið allt talið ill ræktanlegt.. "Viðhorf til umhverfisins eru að breytast. Við höfum þörf fyrir að vera stolt af okkar svæði. Stolt af ljósanótt, lýsingu bergsins og smábátahöfninni. Stoltið þarf að koma fram víðar. Unnið hefur verið að því töluvert lengi að breyta sýn ungmenna og skólabarna á umhverfið. Nú er skógrækt að verða hluti af námsefni innan grunnskólans - börnin að fylgjast með afrakstri eigin verka. Þetta er að takast núna. Við hjá Skógræktarfélaginu höfum farið í alla skólana og tekið málið upp með kennurum. Skógrækt verður tekin inn í námsskrá grunnskólans. Heiðarskóli er sem dæmi þegar búinn að leggja grunn að þessu með söfnun námsgagna og hefur hafið ræktunarstarfið. Með skógrækt er hægt að kenna hin ýmsu svið nátturvísindanna. Ein planta sem fylgst er með getur skapað óendanlegt hugmyndaflug varðandi námsefni. Ég hlakka til að sjá þetta ganga upp".

Sjúkrahúsið á marga möguleika á að þróast
Þegar umræðan berst að sjúkrahúsinu er Konráð á heimavelli. "Hér sé ég marga möguleika og ef maður fær eldmóð með sér, sem sér þetta sömu augum, þá er þessi keppni, sem maður er alltaf að heyja, auðveldari. Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er tvíþætt. Heilsugæslan starfar samkvæmt lögum. Þar fer fram grunnþjónusta við alla og vissulega er ágæti hennar háð starfsfólkinu. Hér hefur mikið unnist á síðustu árum og lögð hefur verið áhersla á ný verksvið. Í heimahjúkrun er t.d. frábært starf unnið af heilsugæslunni. Fólk er þar þjónustað á sínum heimilum og markmiðið að halda því heima eins lengi og hægt er". Í dag eru um átta manns sem sinna heimaþjónustunni sem á mikið samstarf við sjúkrahússviðið. . "Samsetning lækna við fyrirtækið hefur aldrei verið eins góð. Meginþorri þeirra eru nýútskrifaðir læknar erlendis frá. Þeir hafa mikla þekkingu og koma með ný viðhorf og tíðaranda. Andrúmsloftið er yndislegt á stofnuninni og hér er gott að starfa. Innan Heilbirgðisstofnunar Suðurnesja er engin andúð eða veggjatal. Tíðarandinn er sá að hér eru menn hreinir og beinir og hver leggur sitt til".

Eftirsótt sérfræðiþjónusta
-Sérfræðiþjónusta á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur getið sér gott orð. Við heyrum reglulega af einstaklingum utan svæðis sem koma hingað til að sækja sér þjónustu? "Sérfræðiþjónustan byggir á einstaklingum sem veljast til að sinna henni og þeim orðstír sem hver og einn skapar og því umhverfi sem sérfærðiþjónustan er starfrækt í, í því mikla framboði sem er á sérfræðiþjónustu í landinu. Sérfræðingar eru sjálfstæðir og þeir velja hvar þeir starfa, hvort sem er úti í bæ eða á stofnunum. Fólk getur valið um sérfræðiþekkingu hvar sem er. Við erum í samkeppni og ítrustu kröfur eru gerðar til okkar um gæði. Það er auðvelt að nálgast þessa sérfærðiþjónustu annars staðar. Það er
framtíðarmarkmið okkar á Heilbrigðissofnun Suðurnesja að hlúa að því sem
við erum að gera. Í dag er mikið um að fólk leiti hingað annars staðar af landinu - það er vel.

- Hvaða þjónustu er fólk að sækja hingað?
"Það er mikið um háls-, nef- og eyrnaaðgerðir hér. Læknirinn er líka með stofu í bænum og hefur skapað sér orðspor sem dregur fólk hingað Suður með sjó. Þá er nýkominn bæklunarlæknir sem vinnur bæði hér og í Fossvogi. Hann er ný-fluttur frá Svíþjóð og hans orðstír er langt umfram þessa svæðis. Þvagfæraskurðlæknir hefur nú starfað hér í ár og eru umsvif hans stöðugt að aukast. Starfandi skurðlæknir hefur getið sér gott orð vegna ákveðinna aðgerða sem hann framkvæmir. Þá hafa konur verið að koma annars staðar frá vegna kvensjúkdómavandamála, m.a. vegna þvaglekavandamála. Við höfum verið að gera aðgerðir hér, fyrstir allra á Íslandi, sem flestir í heiminum eru að aðhyllast í dag. Fjórtán af hundraði kvenna eru með þvaglekavanamál og þær koma hingað víða af landinu til að leita sér hjálðar.. Þetta er ákveðin þjónusta sem sóst hefur verið eftir og við getum veitt".

Hliðið af umheiminum er rétt hjá okkur
Í máli Konráðs kemur fram að innan Heilbrigðissofnunar Suðurnesja fer fram starf sem hægt er að bjóða miklu fleirum. Það er hægt að útfæra sérfræðiþjónustuna, segir Konráð. "Hliðið af umheiminum er rétt hjá okkur. Heilbrigðisþjónusta hér er ódýrari en í flest öllum öðrum vestrænum löndum. Þá er fjölbreytt þjónusta í kring. Heilsuhælið í Hveragerði og að sjálfsögðu Bláa lónið. Við eigum að geta gert miklu betur í dag en við erum að gera og þetta hefur margfeldisáhrif. Við drögum til okkar fleiri menntaða menn og konur. Sköpum meiri atvinnu og ímynd okkar eykst," segir Konráð.

- Hvernig markaðssetjum við okkur elendis?
"Fyrst þarf að vinna verkið hér heima, skapa umhverfið. Starfsumhverfi skurðstofunnar í dag er óásættanlegt. Ein skurðstofa í sæmilegu standi og önnur fyrir minniháttar aðgerðir sem ekki þarfnast svæfingar. Við notum sömu uppvöknun fyrir þá sem eru að koma úr aðgerð og þá sem eru að koma í aðgerð. Við höfum hins vegar búið við þetta ástand lengi og pínulítið sætt okkur við það. Það er ekki gott að koma með barn í aðgerð og mæta öðru með kokslöngur eða ælandi sem er að koma úr aðgerð..

Við viljum oft bera okkur saman við aðra. Akranes er ágætt dæmi. Þar hefur heilbrigðisþjónustan byggst upp mun markvísara. Þar hafa margir eldhugar starfað. Á meðan við vorum að kljást við óeiningu innan stofnunarinnar, ríkti þar tíðarandi sem ég finn fyrir að er að byggjast upp hér í dag. Akurnesingar eru ófeimnir að segja að þeir ætli að byggja upp bestu fæðingardeild á landinu. Þeir eru stolltir af skurðstofunum sínu. Þetta getum við líka gert" segir Konráð og bætir við: "Þegar þessari uppbyggingu er lokið þá förum við út í umheiminn. Þá bjóðum við Bandarískum þegnum að koma til Íslans og fá bót meina sinna. Það er ekkert sem hindrar okkur. Það eru óendanleg tækifæri í þessa átt. Við getum markaðssett okkur eins og Bláa lónið. Við erum samkeppnishæf en á lægra verði. Við fáum fleira menntað fólk hingað og mannauður mun aukast".

Möguleikar D-álmunnar miklir
- Hvað þarf að gera til að þessir draumar verið að veruleika? "Ég horfi til 3. hæðar D-álmunnar um að þar verði byggðar tvær skurðstofur. Menn innanhúss eru samhljóma en ráðamenn verða að samþykkja það. Við verðum að kanna jarðveginn á meðan við bíðum. Kannski væri rétt leið að tala við MOA að markaðssetja sjúkrahúsið og kanna hæfa leið á meðan ákvarðanir verða teknar. Konráð talar um að byggðar verði tvær skurðstofur, þar af önnur sérstaklega
fyrir bæklunaraðgerðir og sú þriðja minni. Starfsaðstaða fyrir
starfsfólkið verði einnig bætt til muna en í dag er hún 9 ferm herbergi þar sem áhöld eru þvegin, sótthreinsuð og pakkað um leið og starfsfólkið er að nærast, allt á þessum fáu fermetrum. Fólk beinlínis situr hvert á öðru. " Við þurfum að geta tekið á móti fólki og skilað af okkur fólki á sæmandi hátt. Þetta er hægt að gera á 3. hæðinni. Það var búið að hanna hana sem hjúkrunarrými fyrir aldraða, en í dag er beðið eftir endanlegri ákvörðun um nýtingu hennar. Konráð sér hins vegar fyrir sér að það rými sem í dag er undir skuðrstofuna og starfsemi hennar verði nýtt sem hjúkrunarrými, þannig að að það minnkaði lítið þótt hluti af 3- hæðinni yrði nýtt sem skurðstofurými..

- Hvaða þýðing hefði þetta fyrir samfélagið?
"Jákvætt umtal, stoltari bæjarbúar og sóst væri eftir bæjarfélaginu. Við fengjum fleira starfsfólk og annað aðgengi að heilbrigðisyfirvöldum. Ráðherra gerði nýlega samning um ákveðið magn aðgerða á Akranesi. Hér er einnig þekkingin en aðstöðuna skortir. Við þurfum að vinna grunnvinnuna sjálf. Hér höfum við þegar skapað algerlega nýtt umhverfi með tilkomu D-álmunnar. Neðri hæðin með nýrri aðstöðu til sjúkraþjálfunar, rannsókna og endurhæfingar. Stoðþættirnir eru allir til staðar. Það er ekkert sem hindrar okkur. Við erum að fara úr 20 ferm. herbergi með sjúkraþjálfun í fullkominn þjálfunarsal og einstaka þjálfunarlaug.

10.000 kr. greiddar til hafnfiskra mæðra
Að öðrum málum hér innan stofnunarinnar. Þú hefur sett fram athygliverðar hugmyndir varðandi fæðingardeildina? "Útávið hefur fæðingardeildin verið það sem talað er um á sjúkrahússviðinu. Umönnun á sjúkradeild er hins vegar til mikillar fyrirmyndar en störfin þar eru unin hljóðlátlega. Þau eru annars eðlis. Mikill sómi er af ummönnun hjúkrunarfólks við lok lífs, enda ósjaldan sem því berst þakklæti fyrir. Fæðingardeildin lifir í ákveðnum hillingum og deildin mikið lofuð. Þegar fæðingar voru flestar voru þær 306, síðan 266 árið eftir og hefur farið fækkandi. 20% kvenna sem hér nýta þjónustuna fæða í vatni. Það er einstakt og hvergi eins margar vatnsfæðingar á landinu. Ég vil gjarnan sjá 350 til 400 fæðingar hér á ári. Það myndi skapa minni sveiflur, því fæðingastarfsemin er sveiflukennd. Við höfum jú ekki fengitíma! Við viljum meiri stöðugleika og minni sveiflur. Sú hugmynd hefur komið fram að við ættum að markaðssetja deildina og horfum til Hafnarfjarðar. Við þurfum að skapa okkur orðstír þar og tengsl við Hafnarfjörð. Hvernig væri að bjóða hverjum Hafnfirðingi 10.000 kr. fyrir að fæða á Suðurnesjum? Eitthundrað konur úr Hafnarfirði kosta eina milljón. Það er ekki neitt. Hvað fáum við í staðinn? Við fáum jákvætt umtal,ef vel tekst til. Margfeldisáhrifin eru mikil. Við erum ekki að gera Hafnfirðinga að féþúfu, heldur bjóða þjónustu af gleði Markmiðið er að gera okkar stöðu sterkari. Ef við vinnum okkar heimavinnu verða áttirnar tvær Ef við hins vegar gerum það ekki þá liggur leiðin bara í aðra áttina. Við getum vel fengið fólk hingað Suður til að sækja sína þjónustu . Hvað er ein milljón króna á hverjar 100 konur? Þetta er djörf hugmynd en vel þess virði að framkvæma hana. Það er einmuna lið innan þessara veggja og jákvætt starfsfólk. Það hafa opnast möguleikar með stærra húsnæði. Viðhorf fólks hefur breyst mikið. Hokurbúskapnum er að ljúka. Við erum að mennta hjúkrunarfólk og lækna. Við erum full af stolti. Ég vil að fólk í bæjarfélaginu sé stollt af þessari stofnun. Fyrir utan sinn tilgang krefst fyrirtækið mikils mannafla og veitir þar með mörg störf. Mér finnst almennt aðlaðandi fyrir þetta bæjarfélag að breyta ímynd sem á landsvísu, hefur verið verið nægjanlega jákvæð. Takist það fyllist maður stollti. Það er eftirsóknarvert að taka þátt í slíku starfi. Þegar hingað kemur maður sem býður öllu birginn, hefur víðtæka reynslu og kann aðferðarfræðina þá finnst mér ég hafa ástæðu til að fylgja honum. "Hans jákvæða viðhorf fellur mér best", segir Konráð Lúðvíksson að endingu.

Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024