Kona úr Njarðvík myrt í Bandaríkjunum
Íslensk kona, ættuð úr Njarðvík, var myrt í bænum Marbletown í Bandaríkjunum á gamlársdag. Konan, 49 ára gömul, var skotin af eiginmanni sínum á heimili þeirra um kl. 04 aðfararnótt gamlársdags. Skömmu síðar svipti ódæðismaðurinn, 53 ára, sig lífi við bensínstöð í nágrenninu. Frá þessu greinir Mid-Hudson News. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta átti konan börn en þau sakaði ekki.
Maðurinn hafði sólarhring áður verið fangelsaður fyrir að áreita konu sína og verið gert að halda sig fjarri henni, en síðan látinn laus gegn 5000 dollara tryggingu. Ekki er vitað hver greiddi trygginguna. Lögreglan taldi sig hafa gert öll vopn mannsins upptæk, en hann var lögreglumaður til 20 ára, en lét af störfum á síðasta ári.
Mynd: Maðurinn sem varð íslensku konunni að bana á gamlársdag. Mynd: Kingston State Police