Kominn í Staðarskála eftir erfiða Holtavörðuheiði
Sigvaldi Arnar Lárusson, gangandi lögreglumaðurinn úr Keflavík, er kominn í Staðarskála á ferð sinni gangandi frá Keflavík til Hofsóss.
„Einn erfiðasti dagur sem ég hef upplifað og aldrei hefur mér liðið eins og núna,“ skrifar Sigvaldi á fésbókarsíðu göngunnar, Umhyggjugangan.
Dagleiðin sem farin var í gær var heilir 60 kílómetrar yfir Holtavörðuheiði. Nokkrir gengu með Sigvalda þessa leið, sem var mjög erfið, kílómetrarnir margir og yfir háa heiði að fara.
Sigvaldi er þessa stundina að leggja upp frá Staðarskála og mun í lok dags verða kominn á Hvammstanga þar sem hann hvílist næstu nótt.
Rétt er að minna á að ganga kappans er til styrktar Umhyggju, langveikum börnum og er hægt að hringja inn styrki í eftirtalin númer:
901-5010 - 1.000 kr.
901-5020 - 2.000 kr.
901-5030 - 3.000 kr.