Fréttir

Koma skoðunum sínum á framfæri milliliðalaust
Þriðjudagur 5. febrúar 2019 kl. 09:19

Koma skoðunum sínum á framfæri milliliðalaust

Fræðsluráð Reykjanesbæjar vill taka undir að ótækt sé að horft sé framhjá vandamálum án þess að taka á þeim. Starfsáætlun fræðslusviðs ber einmitt vott um það, að mati fræðsluráðs, að stöðugt sé leitað úrræða til þess að styðja starfsfólk í skólasamfélaginu í sínum störfum. Þetta kemur fram í fundargerð fræðsluráðs frá 1. febrúar í framhaldi af bókun fulltrúa grunnskólakennara á síðasta fundi
 
„Því til viðbótar vill fræðsluráð benda á að á næstu vikum munu stjórnendur í Reykjanesbæ heimsækja leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu til þess að ræða við starfsfólkið. Þar fá m.a. kennarar tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri milliliðalaust, bæði um mannauðsmál og faglegt starf í skólunum. Í kjölfarið verður farið yfir hvar úrbóta er þörf varðandi starfsaðstæður starfsfólks skólanna og er ætlun Reykjanesbæjar að vinna að aðgerðum í samstarfi við starfsfólk til að bregðast við því,“ segir í fundargerðinni.
 
Fulltrúar minnihluta fræðsluráðs lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Það er mikilvægt að gæta þess að ekki halli á lýðræðið þegar kjörnum fulltrúum er boðið að taka þátt í skipulögðum fundum stjórnenda sveitarfélagsins. Að lágmarki ætti að bjóða einum fulltrúa meirihluta og einum fulltrúa minnihluta að taka þátt. Við hvetjum meirihluta bæjarstjórnar og stjórnendur sveitarfélagsins til að gæta að þessu.“
Undir þetta skrifa Andri Örn Víðisson fulltrúi D listans og Íris Ósk Kristjánsdóttir fulltrúi Frjáls afls.
 
Public deli
Public deli