Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kom ölvuð á bílnum til lögreglunnar
Föstudagur 12. mars 2010 kl. 13:35

Kom ölvuð á bílnum til lögreglunnar


Fertug kona í Reykjanesbæ kom á lögreglustöðina í Reykjanesbæ, sjánlega mjög ölvuð, og bað um að henni yrði ekið heim vegna þess að hún væri ekki í ástandi til þess að aka sjálf. Hún kom sumsé á bílnum.
Fyrir vikið hefur Héraðsdómur Reykjaness nú dæmt konuna til greiðslu sektar upp á 160 þúsund krónur. Greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna kemur 12 daga fangelsi í stað hennar. Þá þarf hún að sæta ökuleyfissviptingu til 18 mánaða. Dómurinn féll í morgun en atvikið átti sér stað í júlí á síðasta ári.

Málsatvik eru í grófum dráttum þau að konan kom á lögreglustöðina í Keflavík, sjáanlega mjög ölvuð, eins og segir í dómsskýrslu, og tók lögreglumaður þar á móti henni. Bað hún hann um að aka henni heim á bifreið hennar vegna þess að hún væri ekki í ástandi til þess að aka sjálf. Er hún var innt eftir því hvort hún hafi sjálf komið akandi að lögreglustöðinni kvað hún vin sinn hafa ekið en hann væri horfinn á braut og skömmu síðar breytti hún frásögn sinni á þann veg að sonur hennar, sem hún vildi ekki nafngreina, hefði ekið bifreiðinni.

Þegar varðstjóri tilkynnti henni að hann ætlaði að hringja í soninn til þess að spyrja hann hvort hann hafi ekið sagði hún það óþarft og viðurkenndi að hún hefði sjálf ekið bifreiðinni. Kvaðst ákærða hafa drukkið áfengi í grillveislu og ekið af stað heim til sín en ákveðið að keyra að lögreglustöðinni og leggja bílnum þar og fá far heim. Í framhaldi af þessum framburði ákærðu gaf hún öndunarsýni sem gaf þá niðurstöðu sem fram kemur í ákæru og leiddi til þess að ákærða var svipt ökurétti til bráðabirgða þegar í stað.

Þann 23. september kom ákærða til lögreglunnar í þeim erindum að draga til baka fyrri framburð sinn og kvaðst ekki hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn eins og hún hafði áður játað og nefndi til sögunnar æskuvinkonu sína sem ökumann.

Vitnisburðir lögreglumannanna eru með þeim hætti að  ákærða sást  stíga út úr bílnum í umrætt sinn og lögreglumaður tók á móti ákærðu í anddyri lögreglustöðvarinnar. Urðu lögreglumenn ekki varir nokkurra mannaferða við stöðina sem gæti bent til þess að annar gæti hafa verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn.

Það er mat dómsins að ákærðu hafi ekki tekist að færa fram neina skynsamlega og trúverðuga skýringu á afturhvarfi sínu frá fyrri játningu en til þess nægi engan veginn ótrúverðugur framburður vitnisins, vinkonu hennar.
Dómurinn lagði ekki trúnað á afturhvarf ákærðu frá játningu sinni og telur yfir allan skynsamlegan vafa hafið að hún sé sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024