Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kolsvartur reykurinn sást víða að
Miðvikudagur 9. febrúar 2005 kl. 20:00

Kolsvartur reykurinn sást víða að

Vitni að stórbrunanum hjá fiskimjölsverksmiðju Samherja í Grindavík eru á einu máli um að bruninn hafi verið mikið sjónarspil og verksmiðjan hafi fljótt verið orðin alelda. Hákon Jóhannesson matvælafræðingur hjá Matvælatækni í Kópavogi var að heimsækja fyrirtæki í Grindavík þegar eldurinn kom upp í dag.
Hákon sagðist hafa ekið framhjá fiskimjölsverksmiðjunni um það leiti sem eldurinn kom upp. Hann hafi veitt reyk frá verksmiðjuhúsinu athygli en talið hann vera af eðlilegum ástæðum. Um tíu mínútum síðar kom Hákon síðan út úr nálægu fyrirtæki og þá mætti honum megn brunalykt. Fiskimjölsverksmiðjan var alelda og fyrstu slökkviliðsmennirnir voru að hefja baráttuna við bálið.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Hákon að mikill og svartur reykjarmökkurinn hafi strax vakið athygli hans. Aðrir sjónarvottar urðu reyksins m.a. varir á ferð um Reykjanesbrautina. Fjölmargar hringingar bárust til Víkurfrétta vegna málsins og var engu líkara en gos væri hafið handan við Reykjanesfjallgarðinn, séð frá Brautinni. Reykurinn sást vel frá höfuðstöðvum Víkurfrétta í Njarðvík og mátti sjá mökkinn stíga upp vestan við Þorbjörninn, séð frá Njarðvíkum.

Hákon Jóhannsson tók meðfylgjandi myndir í Grindavík í dag og veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta þær hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024