Kolfinna í nýtt meirihlutasamstarf þrátt fyrir hótanir
Meirihluti sjálfstæðismanna féll í Garðinum um liðna helgi þegar fjórði maður á D-lista sjálfstæðismanna, Kolfinna S. Magnúsdóttir, sagði skilið við framboðið og gekk til liðs við N-listann. Þar með missti D-listinn meirihluta sinn í bæjarstjórn en N-listinn myndar nýjan meirihluta með bæjarfulltrúa L-listans. D-listinn hafði áður fjóra bæjarfulltrúa, N-listinn tvo og L-listinn einn.
Í sameiginlegri yfirlýsing N- og L-lista í Sveitarfélaginu Garði segir að á næstu dögum verður gengið frá formsatriðum, kosið í nefndir og ráð sem og auglýst eftir nýjum bæjarstjóra. Nýr meirihluti Sveitarfélagsins Garðs segir jafnframt að endurreisa þurfi sjálfsvirðingu og trú í bænum. Einnig þurfi að skapa frið og traust í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem nýr meirihluti, þau Jónína Holm, Pálmi S. Guðmundsson, Kolfinna S. Magnúsdóttir og Davíð Ásgeirsson sendu frá sér um liðna helgi.
„Samstarf nýs meirihluta mun byggja á virðingu, sátt og samvinnu. Lýðræðislega mun verða unnið úr öllum málum og faglega staðið að verkefnum. Með myndun nýs meirihluta er sýnd sú pólitíska ábyrgð sem kjörnir bæjarfulltrúar eru kosnir til með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir einnig að nýr meirihluti vilji að breið sátt muni ríkja og pólitísk samstaða um þær úrbætur sem gera þurfi.
Langvarandi óánægja með ákveðin mál hefur verið innan D-listans sem Kolfinna rekur í viðtali við Víkurfrétta allt til síðasta sumars. Hún talar um valdatafl og hroka á milli manna, flokka og jafnvel ætta. Hún segir að hún hefði ekki geta trúað því að bæjarpólitíkin væri svona. Þessi persónulega harka bæri vott um leyfar af gamla kerfinu þar sem goggunarröðin og foringjahollusta réði ríkjum.
Myndarleg fjölskylda
Bæjarfulltrúinn Kolfinna S. Magnúsdóttir er grunnskólakennari að mennt og settist að í Garðinum fyrir sjö árum síðan með fjölskyldu sína en hún er gift Stefáni Friðrik Einarssyni matreiðslumeistara. Hún á þrjár dætur og þrjá ömmustráka en Stefán á fimm börn og þrjár afastelpur.
Þegar Kolfinna fór í framboð með D-lista sjálfstæðismanna fór hún gegn mörgum af sínum bestu vinum og samstarfsfélögum. Þannig segir Kolfinna að þær Jónína Holm, oddviti N-listans, hafi verið góðar vinkonur áður en hún hafi ákveðið að hella sér í stjórnmálin. Þær kenndu m.a. báðar við Gerðaskóla og eiga líka báðar fjölfötluð börn. „Sá sérstaki reynsluheimur sem við eigum sameiginlega og búum að báðar tengir okkur með sérstökum hætti. Síðustu tvö ár hafa reynt mikið á okkar vináttu þar sem við sátum gegn hvor annari í minni og meirhlutanum fráfarandi“.
Ágreiningur um skólamálin
- Hvað veldur því að þú tekur þessa ákvörðun að hafa vistaskipti?
„Þó svo að menn séu ekki sammála um það núna, þá hafa verið átök og ágreiningur innan D-listans útaf málefnum skólans. Menn vilja samt ekki kannast við það í dag. Þessi mál hafa tekið á alla, bæði fráfarandi meirihluta og minnihluta, skólasamfélagið og alla íbúa í Garðinum. Það sem greinir á núna síðustu vikurnar, eftir að skýrslan um skólamálin er komin, er hvernig fylgja eigi úrbótunum eftir. Við vitum það að það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir eða gerðir. Þú getur verið að strá salti í sárin og gert meiri skaða en hitt ef ekki er rétt staðið að málum. Fráfarandi formaður skólanefndar Reynir Þorsteinsson og ég höfðum haft meiri áhyggjur af því að ekki næðist friður í samfélaginu nema fólk sýndi þann þroska sem nauðsynlegt væri til að úrbótavinna sú sem tekið er fram að þurfi að eiga sér stað geti orðið skólanum til góðs. Áhyggjur manna að allt það starf og sú vinna sem lögð hefur verið fram með viðamikilli úttektarskýrslu sem Mennta og menningarmálaráðuneytið lét vinna renni nú út í sandinn er því ástæðulausar. Ég mun fylgja skólamálunum eftir í nýju meirihlutasamstarfi og þeim úrbótum sem vinna þarf markvisst að í skólanum.Það verður fyrst og fremst unnið af nýjum skólastjóra og skólaskrifstofu í samvinnu og sátt við allt skólasamfélagið.
Bæjarstjórn og bæjarstjóri verða að taka ákvarðanir sem bera hag allra í brjósti, ekki bara þeim sem tengjast meirihlutanum eða stuðningsfólki hverju sinni. Fólk verður að leggja sína persónu til hliðar og horfa á heildarhagsmuni. Sárindi hafa verið það mikil og djúpstæð og því þurfa nú allir að taka höndum saman. Það er ekki bara hægt að gera einhliða kröfur til skólans og skólasamfélagsins að fólk þar beygi sig og bæti. Það þurfa fleiri að taka þátt í breytingum“.
- Þetta hefur verið erfiður vetur hér í Garðinum.
„Já, mjög svo. Þegar skýrslan kemur og menn sjá hana þá kemur í ljós að það er margt mjög vel unnið í henni að flestu leiti. Þegar við fáum hana í hendur finn ég að við í D-listanum erum ekki sammála um hvernig eigi að fara þær leiðir að þeim úrbótum sem bent er á í skýrslunni. Ég batt miklar vonir við það að þegar skýrslan væri komin að þá væri þetta skólamál búið frá okkar hendi og fræðsluskrifstofan myndi taka við málinu. Þannig yrði unnið faglega í samstarfi við nýjan skólastjóra og við gætum sagt skilið við þetta erfiða mál. Okkur greindi alltof mikið á um hvernig ætti að standa að þeim breytingum sem þyrfti að gera samkv. Því sem skýrslan leggði til.
Hrósar forseta bæjarstjórnar
Kolfinna hrósar Einari Jóni, fráfarandi forseta bæjarstjórnar, sem hún segir hafa verið gríðarlega mikilvægan í samstarfi bæjarfulltrúa D-listans og hann hafi hlustað á öll sjónarmið, m.a. innan skólasamfélagins. „Við vorum alfarið á sama máli hvernig standa ætti að þeim úrbótum sem skýrslan leggi til og vildum bæði að það yrði algörlega unnið af fagaðilum þ.e. tilvonandi skólastjórnanda undir handleiðslu fræðsluskrifstofunnar“.
Kolfinna segir að Ásmundur Friðriksson, fráfarandi bæjarstjóri, hafi bent á það í viðtölum að nýr meirihluti hafi mikil tengsl inn í skólann. Hún segir það vissulega rétt en tengslin séu einnig mikil hjá D-listafólkinu. Annað sé ekki hægt í svona litlu samfélagi eins og Garðinum, þar sem skólinn sé stærsti vinnustaðurinn.
„Tengslin inn í skólann er ekki hægt að rjúfa nema að fá utanaðkomandi fólk í bæjarstjórn. Þetta er alveg hárrétt hjá bæjarstjóranum að það séu sterk tengsl inn í skólann en hann gleymir bara að segja frá því að þau eru beggja vegna, bæði hjá minnihluta og meirihluta“.
Hroki og valdatafl
- Hefur það komið þér á óvart eftir að þú byrjaðir afskipti af stjórnmálum, hvernig þau virka?
„Jú vissulega. Ég fékk mikla hvatningu á sínum tíma að fara út í pólitík. Ég hélt það að í svona litlu, fallegu og friðsömu, að ég hélt, samfélagi þar sem að maður þekkir alla og bara af góðu, þá hafði ég trú á því að fólk væri það skynsamt að það gæti unnið saman að mjög einföldum málum. Það er ekki eins og þetta sé á Alþingi.
Þessi leiðindi hér í Garði og þessir erfiðleikar í stjórnun snúast fyrst og fremst um hroka og valdatafl í rauninni á milli manna eða milli flokka og jafnvel ætta.
Þessi ákvörðun mín að fara yfir til minnihlutans snérist ekki um mig. Það hefði ekkert verið léttara eða kærkomnara en að fara út um bakdyrnar. Þegar ég fór að hugsa þá útgönguleið þá fannst mér það vera ákveðin svik við þau mál sem ég vil berjast fyrir“.
Átti von á heilindum
Kolfinna segir tilhlökkun í að fara að starfa með fólkinu í nýja meirihlutanum enda finni hún að sín baráttumál eigi góðan hljómgrunn þar.
„Þó að þessi skref hafi verið þung, þá hefur þetta verið mér ákveðinn léttir að hafa tekið þess ákvörðun,“ segir Kolfinna.
- Þú hefur svo sannarlega fengið að finna fyrir þessari ákvörðun þinni. Það hefur mikið gengið á hér við heimili þitt og heimilisfólk hefur verið ónáðað. Getur þú lýst ástandinu?
„Ég vil taka það skýrt fram að ég skil sárindi manna og virði það. Það má vera að fólk sé ekki upplýst um hlutina og það sem hefur gengið á. Ég hef verið í erfiðri aðstöðu til að tjá mig. Eftir að ég tók þessa ákvörðun þá kom þetta mér kannski ekki á óvart. Ég átti kannski ekki von á stuðningi en ég átti von á heilindum frá fyrrum samstarfsfólki í gamla meirihlutanum, þar sem menn að hluta til, voru algjörlega sammála mér um þau ágreiningsefni sem hafa verið. Samfélagið hér í Garði var upplýst um það að meirihlutinn var ekki sammála og það kom fyrst fram í fyrrasumar“.
Kolfinna segir að það hafi í raun komið sér á óvart hvað siðferðiskennd fólks er komin úr sambandi eftir að hún tók þá stóru ákvörðun að ganga til liðs við N-listann. „Reiðin og heyftin hefur náð tökum á fólki og skynsemin nær þess vegna ekki til þess og fólk framkvæmir þá hluti sem það þarf svo að hafa ás sinni samvisku. Það er átakanlegt“.
Gerð tortryggileg vegna Parkinson-sjúkdóms
- Þér hefur verið hótað ofbeldi.
„Þegar svo er komið þá er ekki hægt að láta það yfir sig ganga. Þegar farið er að hringja í fjölskyldumeðlimi og hótað að birta persónuleg bréf sem snerta fjölskylduna og dóttur mína sem er fötluð og notfæra sér viðkvæmar upplýsingar sem eru í raun engin leyndarmál en að sjálfsögðu ekki ætlaðar til birtingar. Fólk áttar sig ekki á því að það er ekki skömm að ganga með sjúkdóm líkt og Parkinsons. Því er það frekar mikil fáfæði að telja að það sé eitthvað ógnandi fyrir mig að menn tali um að ég sé „sjúk eða sjúklingur“. Það lít ég frekar á sem fáfræði og fordóma, þar sem flestir þeir sem hafa lámarks þekkingu á hvernig sá sjúkdómur hagar sér ættu að vita að fyrstu árin a.m.k. hjá svo ungu fólki þá eru einkennin væg og sjást lítið sem ekkert og fólk getur öllu jafna lifað eðlilegu lífi án þess að það þurfi að breyta miklu. Hins vegar get ég sagt það í einlægni að ég er sannfærð um að bæði sú reynsla að greinast með eins alvarlegan sjúkdóm og Parkinson-sjúkdómurinn er hefur í raun gert mig sterkari og ekki síst auðmýkri. Því þegar maður gengur í gegnum slíkt sorgarferli að greinast með alvarlegan ólæknandi sjúkdóm þá eins og alltaf í lífnu hefurðu val. Það val stendur milli þess að halda áfram og nýta sér það sem maður hefur þ.e. þekkingu, menntun og reynslu eða láta láta í minni pokann vegna stirðleka í liðum o.þ.h.
Ég hugsaði aldrei út í það að samstarfmenn mínir litu á mig sem „sjúka“ og hvað þá að þeir virkilega teldu að þeir gætu „hjálpað“ mér. Skil reyndar ekki enn hvað átt var við með þeim orðum en þau lét fyrrum félagi minn falla við mig í símtali við mig.
„Guð blessi Garðinn“
Ég held að svona framkoma sé ekki algeng. Ég á a.m.k. erfitt með að trúa svona nema af því að ég er að upplifa það sjálf. Ég er samt sem áður viss um að fólk almennt vilji ekki láta svona viðgangast í samfélagi okkar þar sem virðing á að vera borin fyrir öllum sama hvort um þú gangir með sjúkdóm, fötlun eða eitthvað sem gerir það að verkum að fólk virkilega heldur að hægt sé að nota gegn manni til að reyna að gera lítið úr ákvarðanatöku þess með þessum lákúrulega hætti. Ég hefði aldrei trúa því að fólk leggi sig svo lágt að fara niður á svona plan. Svona gerir siðað fólk bara ekki. Einhverstaðar sá ég skrifað „Guð blessi Garðinn“ ég tek svo sannarleg undir þau fallegu bænarorð og bið Guð líka í mínum bænum að koma þessari illsku og mannvonsku burt úr hjörtum fólks. Þó svo ég gangi með Parkinson-sjúkdóminn, þá nýtir fólk sér það ekki í brandara og gefur eitthvað í skyn og reyna að gera mig tortryggilega með þeim hætti. Ég mun ekki sætta mig við svoleiðis framkomu og ég er alveg viss um að samfélagið hér mun ekki taka þátt í henni“.
Kolfinna segir blaðamanni frá ljótum símhringingum, sms-sendingum og tölvupóstum sem hún hefur fengið. Símaónæðið hefur verið mikið og á meðan viðtalið fór fram hringdi síminn oft. Kolfinna sagði að ef þetta færi ekki að taka enda væri næsta skref að leita til lögreglunnar. Hún hafi tölvupósta, smáskilaboð og símanúmer til að leggja fram.
Fullorðnir í einelti
Kolfinna segir það sem hún hafi upplifað síðustu daga sé kannski ein af birtingarmyndum þess eineltis sem svo mikið hafi verið í umræðunni. Það sé hins vegar mun alvarlegra þegar fullorðið fólk á í hlut. Þar talar Kolfinna um árásir á sína persónu, fjölskyldu hennar og heimili og segir lýðræðið í raun fótum troðið. Þá hafi henni verið hótað líkamsmeiðingum og allt yrði gert til að flæma fjölskylduna úr Garðinum. Kolfinna ætlar ekki að láta hótanirnar buga sig.
„Að sjálfsögðu ekki. Ég læt ekki svona hluti stoppa mig“.
Hún segir að þrátt fyrir harðar árásir í kjölfar ákvörðunar sinnar að yfirgefa D-listann ganga til liðs við N-listann, þá hafi einnig margir komið að máli við hana og lýst ánægju sinni með þessa ákvörðun og miklar vonir séu bundnar við nýtt meirihlutasamstarf N- og L-lista eftir vistaskipti Kolfinnu.
„Nú verður vonandi hægt að fara að vinna siðlega að málum. Það að fólk hafi ætlað mér að stinga einhverju undir stól er þvílík fjarstæða“.
Stilla saman strengi
Næstu skrefin hjá nýjum meirihluta í Garði verða þau að bæjarfulltrúar ætla að ræða saman og stilla strengi. Nýr skólastjóri verður fljótlega ráðinn að Gerðaskóla og staða bæjarstjóra auglýst.
Aðspurð segir Kolfinna að það hafi verið yndislegt að hitta fólkið í nýja meirihlutanum og finna að allir voru tilbúnir að vinna saman að breiðri sátt.
„Það stóð heldur ekki á gamla minnihlutanum að bjóða meirihlutanum að halda velli undir þeim formerkjum að það yrði unnið lýðræðislega og með virðingu fyrir fólki. Ég gerði mér vonir um að forseti bæjarstjórnar gæti leitt saman alla þessa flokka og framboð. D-listinn hefði getað haldið sínum meirihluta á nýjum forsendum en menn þar á bæ voru ekki tilbúnir í það. Ég tek það fram að þetta var aðeins rætt í þröngum hópi en ekki við alla fulltrúa D-listans“.
Krafa um nýjan bæjarstjóra
- Var þá krafan að skipta um bæjarstjóra?
„Forsendan fyrir nýrri stjórn allra framboða var að ráðinn yrði nýr bæjarstjóri til bæjarfélagsins og þannig ná friði í bæjarfélaginu“.
- Nú er nefnt að mikill kostnaður fylgi bæjarstjóraskiptum Talan 30 milljónir hefur verið nefnd og þá er ótalinn 20 milljón króna kostnaður við skólastjóraskipti.
„Ráðningarsamningur við núverandi bæjarstjóra er verk fráfarandi bæjarstjórnar og því ekki hægt að kenna nýjum meirihluta um hann. Auðvitað er þetta mikill fórnarkostnaður en vonandi nær fólk að taka sig saman í andlitinu og fara að vinna saman að áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins,“ segir Kolfinna S. Magnúsdóttir, nýr bæjarfulltrúi N-listans í viðtali við Víkurfréttir.
Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson