Kolafarmur bíður uppskipunar í Keflavíkurhöfn
— Traffík í skipakomum til Helguvíkur
Traffík hefur verið í skipakomum til Helguvíkur frá áramótum. Eitt flutningaskip hefur beðið í Keflavíkurhöfn frá því á gamlársdag með kolafarm fyrir kísilver United Silicon.
Flutningaskipið Wilson Gdynia hefur beðið í höfninni í Keflavík með fullfermi af kolum fyrir kísilverið í Helguvík. Á nýársdag var unnið að uppskipun á sementi úr sementsskipinu Ireland í Helguvík. Um leið og það fór frá bryggju kom Wilson Varna með kvars fyrir kísilverið. Því skipi varð hins vegar að vísa á ytri höfnina á meðan flutningaskipið Lagarfoss kom til hafnar í Helguvík til að sækja afurðir frá kísilverinu. Þegar Lagarfoss fór úr höfn aðfararnótt miðvikudags var Wilson Varna aftur komið að bryggju til að ljúka uppskipun á kvarsinu. Þegar uppskipun á kvarsinu er lokið verður Wilson Gdynia færður frá Keflavíkurhöfn og yfir í Helguvík þar sem kolafarminum verður skipað upp.
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, segir þessa skipaumferð gott dæmi um það sem verður til framtíðar í höfninni og álagið á bara eftir að aukast. Það sé því orðið mjög aðkallandi að auka við viðlegupláss í Helguvíkurhöfn.
Útskipun á afurðum kísilversins um borð í Lagarfoss í Helguvíkurhöfn í fyrrinótt. VF-myndir: Hilmar Bragi
Sementsflutningaskipið Ireland í Helguvík með fullfermi af sementi fyrir Aalborg Portland.