Kók um borð í vélum Icelandair á ný
Icelandair og Vífilfell undirrituðu á föstudag samning um að vörur Vífilfells verði á ný fáanlegar um borð í vélum Icelandair og næstu tvö árin hið minnsta. Samningurinn felur í sér kaup Icelandair á gosdrykkjum, bjór, vatni, safa og léttum vínum frá Vífilfelli.
Til marks um umfang samningsins þá flytur Icelandair að meðaltali um fjögur þúsund farþega á hverjum sólarhring í áætlunarflugi sínu. María Rún Hafliðadóttir, forstöðumaður farþegaþjónustu Icelandair segir samninginn ánægjulegan. "Sem fyrr er okkar helsta markmið að veita okkar viðskipavinum gæðaþjónustu á góðu verði. Vífilfell hefur, líkt og Icelandair, sinn sess á alþjóðamarkaði, þeir bjóða góðar vörur sem njóta mikillar vinsælda."
Vífilfell hf. er einkaframleiðandi The Coca-Cola Company á Íslandi og hafa gosdrykkir fyrirtækisins nú ríflega 60% markaðshlutdeild hérlendis, auk þess að vera meðal þekktustu vörumerkja í heimi. Vífilfell hefur einnig styrkt stöðu sína talsvert á undangengnum árum á bjórmarkaði og er stærsti bjórframleiðandi landsins með um 45% markaðshlutdeild. Þar á meðal er mest seldi bjór á Íslandi, Víking Gylltur, sem á ný er á boðstólnum um borð í flugvélum Icelandair. Auk þess verður áfram boðið upp á Brazza frá Vífilfelli, auk Pure Icelandic vatns og Delicato víns frá Californiu.
VF-Mynd/Þorgils: Forstjórar fyrirtækjanna, þeir Jón Karl Ólafsson og Árni Stefánsson undirrituðu samninginn um borð í Boeing 757 þotu Icelandair á föstudag.